Davide hætti nýverið með Ekin-Su Culcologlu en þau kynntust í áttundu seríu af bresku raunveruleikaþáttunum Love Island. Hann virðist hafa skotist til Ibiza að skemmta sér í kjölfarið.
Sjá einnig: Matthildur og Aníta eyddu kvöldi með Love Island sigurvegaranum Davide
Fljótlega birtist myndband af kappanum þar sem hann virðist taka einhverskonar hvítt duft í nefið. Segir Davide hins vegar að ekki sé allt sem sýnist á myndbandinu en hann sendi frá sér yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum Instagram. Þar sagðist hann hafa verið ólíkur sjálfum sér undanfarnar vikur.
„Hæ allir, þið gætuð hafa heyrt sögur um mig vegna ferðar minnar til Ibiza. Það er ekkert leyndarmál að síðustu vikur hafa verið afar erfiðar fyrir mig,“ skrifar Davide sem skaust upp á stjörnuhimininn eftir stormasöm kynni við Ekin-Su í Love Island þáttunum.
Þau voru af mörgum talin vera eitt frægasta par sem þættirnir hafa getið af sér og því áfall fyrir marga þegar fréttir bárust af því að þau hefðu hætt saman. Davide segist ætla að einbeita sér að framtíðinni, ferlinum og ástvinum sínum á meðan hann jafnar sig.
