Jón segir að hins vegar þurfi að gera enn frekari ráðstafanir í útlendingamálum en nýsamþykkt frumvarp hans næði til enda staðan alvarlegri en lögin næðu yfir. Þá væru vonbrigði að frumvarp um breytingar á lögreglulögum fær ekki í gegn á vorþingi.
„Og eins sameiningarlögin um héraðsdómstóla og sýslumenn. Þetta voru mjög stór mál. Gríðarleg undirbúningsvinna sem hafði farið í þau. En það var gefist upp fyrir þeim núna í vor. Það var slæmt. Lögreglulögin eru þjóðaröryggismál,“ segir Jón.
Íslendingar væru langt á eftir nágrannaþjóðum í þessum efnum. Það hefði aftur á móti ekki verið samstaða um málið í ríkisstjórninni.

Hvar var andstaðan mest, var það í flokki forsætisráðherrans?
„Já, í lögreglulögunum hefur það legið fyrir. Það eru svo sem aðrir flokkar eins og Píratar á Alþingi sem líta á þetta með öðrum augum en mörg okkar hinna,“ segir Jón.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það hafa legið fyrir að Vinstri græn teldu að auknar valdheimildir og breytt hlutverk lögreglu kölluðu á aukið eftirlit.
„Það kom í ljós þegar málið var lagt fram. Þá kynntum við fyrirvara þingflokksins, fyrir utan að það var ráðherra í ríkisstjórninni með fyrirvara við þetta tiltekna mál. Vegna þess að það var ekki talið nægjanlega vel búið um í raun og veru eftirlit með þessum auknu valdheimildum. Þar held ég að það hafi algerlega verið lausnir á borðinu en það náðist ekki saman um þær,“ segir Katrín Jakobsdóttir.