Innlent

„Ég buffa þig og þennan drulludela“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóminn 1. júní síðastliðinn.
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóminn 1. júní síðastliðinn. Vísir

Pólskur karlmaður hefur verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir hótanir, umferðalagabrot og fjársvik, meðal ann­ars með því að hafa stolið bens­ín­lykli og notað hann án heim­ild­ar. Maðurinn rauf reynslulausn en hann hefur ítrekað verið dæmdur fyrir ýmis hegningarlagabrot.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að maðurinn hafi í desember 2020 stolið bensínlykli og notað hann í blekkingarskyni til að greiða fyrir eldsneyti sem nam samtals rúmlega 40 þúsund krónum.

Var hann á sama tímabili tekinn við að aka bifreið sinni sviptur ökurétti. 

Í október á síðasta ári var maðurinn ákærður aftur fyrir hótanir þar sem hann hótaði konu og unnusta hennar. 

„Ég buffa þig og þennan drulludela,“ skrifaði maðurinn á pólsku og sendi konunni auk þess efitirfarandi skilaboð: „Þú ert helvítis tussa ég bíð eftir ykkur,“ „Stúta smettinu á honum“ og „Þú þarna egóistinn þinn ég rústa þér“.

Voru ummælin talin til þess fallin að vekja hjá henni ótta um líf sitt og unnusta hennar og velferð þeirra.

Við meðferð málsins breytti maðurinn afstöðu sinni til ákærunnar og játaði sök.

Eins og áður segir hefur maðurinn komist ítrekað í kast við lögin. Hann var árið 2016 dæmdur í 90 daga fangelsi fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis. Árið 2018 sömuleiðis og var hann svipur ökurétti. Hann fékk reynslulausn í júlí 2020 en árið 2022 var hann aftur dæmdur í 11 mánaða fangelsi fyrir akstur undir áhrifum fíknefna. 

Þar sem fyrrgreind brot voru fram áður en dómur féll árið 2022 var honum gerður hegningarauki. Með hliðsjón af því var refsing ákveðin fimm mánuðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×