Pence þurfti að flýja þinghúsið vegna árásarinnar en hann átti þá að taka þátt í því að staðfesta formlega úrslit forsetakosninganna 2020, sem Joe Biden vann. Stuðningsmenn Trumps vildu koma í veg fyrir þá staðfestingu og voru reiðir út í Pence fyrir að neita beiðni Trump um að staðfesta ekki úrslitin, sem er eitthvað sem Pence hafði ekki vald til að gera.
Sjá einnig: Trump skellir skuldinni á Pence fyrir árásina á þinghúsið
AP fréttaveitan segir að Pence muni fylla út þá pappíra sem til þarf í dag og að hann ætli sér að hefja kosningabaráttu sína í Iowa á miðvikudaginn en þá verður hann 64 ára gamall.
Trump mælist með mest fylgi af þeim sem hafa lýst yfir þátttöku í forvali Repúblikanaflokksins og á eftir honum er Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída. AP segir stuðningsmenn Pence sjá færi fyrir traustan íhaldsmanni sem standi fyrir helstu áherslumál síðustu ríkisstjórnar Repúblikana, án allra þeirra vandamála sem fylgja Trump.
Pence hefur varað við auknum popúlisma í Repúblikanaflokknum og sér sjálfan sig sem íhaldsmann af gamla skóla Ronald Reagan. Hann hefur lýst sjálfum sér sem „kristnum manni, íhaldsmanni og Repúblikana, í þeirri röð“.
Hann er mikill andstæðingur þess að þungunarrof séu leyfð og vill hækka lágmarksaldur þeirra sem hljóta fjárhagslega aðstoð frá ríkinu. Pence hefur einnig sagt að Bandaríkjamenn þurfi að standa þétt við bakið á Úkraínumönnum og hefur verið gagnrýninn á Repúblikana sem hafa farið fögrum orðum um Vladimír Pútín, forseta Rússlands.
Áður en Pence bauð sig fram árið 2016 og varð á endanum varaforsetaefni Trump, sat hann í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í tíu ár og var ríkisstjóri Indiana.
Auk Trump og DeSantis hafa Nikki Haley fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna, Tim Scott öldungadeildarþingmaður, Vivek Ramaswamy frumkvöðull og Asa Hutchinson, fyrrverandi ríkisstjóri Arkansas, lýst yfir framboði til tilnefningar Repúblikanaflokksins. Chris Christie, fyrrverandi ríkisstjóri New Jersy, er sagður ætla að lýsa yfir framboði á morgun og Doug Burgum, ríkisstjóri Norður Dakóta, ætlar að gera það á miðvikudaginn.