Fótbolti

Sigríður Lára leggur skóna á hilluna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sigríður Lára Garðarsdóttir 
Sigríður Lára Garðarsdóttir  vísir/vilhelm

Knattspyrnukonan Sigríður Lára Garðarsdóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna frægu, aðeins 28 ára gömul.

Sigríður, sem uppalin er hjá ÍBV, lék með Eyjaliðinu stærstan hluta ferilsins, en hún lék einnig með FH og Val hér á landi ásamt því að leika með norska liðinu LSK frá Lillestrøm. Alls lék Sigríður 167 leiki í efstu deild hér heima og þá á Sigríður einnig að baki tuttugu leiki fyrir íslenska kvennalandsliðið.

Sigríður greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hún segir að ákvörðunin hafi verið tekin eftir ráðleggingar læknis. Hún segir að nú sé kominn tími til að hlusta á líkamann og setja heilsuna í fyrsta sæti. Sigríður greindist með liðagigt í lok árs 2017, þá aðeins 23 ára gömul.

„Fótboltinn hefur verið mér allt frá því ég var lítil og hefur gefið mér svo margt,“ segir í færslu Sigríðar.

„Ég hef kynnst frábærum liðsfélögum, þjálfurum og starfsfólki sem hafa hjálpað mér í að verða betri knattspyrnukona og manneskja. Þetta fólk á allar mínar þakkir fyrir að nenna mér.“

„Ég lít stolt til baka yfir ferilinn minn og hlakka til að taka brosandi á móti því sem koma skal. Takk fyrir mig.“

Sigríður Lára Garðarsdóttir þakkar fyrir sig.Facebook



Fleiri fréttir

Sjá meira


×