Fótbolti

Draumabyrjun Árna sem hefur nú skorað í sjö löndum

Sindri Sverrisson skrifar
Árni Vilhjálmsson, næstlengst til hægri á mynd, fékk að handleika bikar strax eftir fyrsta leik með Zalgiris og átti risastóran þátt í sigrinum.
Árni Vilhjálmsson, næstlengst til hægri á mynd, fékk að handleika bikar strax eftir fyrsta leik með Zalgiris og átti risastóran þátt í sigrinum. FK Zalgiris

Knattspyrnumaðurinn Árni Vilhjálmsson er strax byrjaður að skora fyrir litháísku meistarana í Zalgiris en hann skoraði tvö mörk í gær þegar liðið vann Kauno Zalgiris í leik um ofurbikarinn.

Árni hafði verið án félags frá því að hann sagði skilið við franska 2. deildarliðið Rodez síðasta sumar, og dvalið á Ítalíu þar sem kærasta hans Sara Björk Gunnarsdóttir spilar með Juventus. Ekki virtist þó neitt ryð í honum í fyrsta leik fyrir Zalgiris í gær, níu mánuðum eftir síðasta leik sem hann spilaði.

Árni kom inn á sem varamaður á 83. mínútu og aðeins sex mínútum síðar skoraði hann fyrsta mark leiksins, sem sjá má hér að neðan.

Kauno Zalgiris náði þó að jafna metin í uppbótartíma og því réðust úrslit leiksins í vítaspyrnukeppni.

Þar var Árni fyrstur á vítapunktinn fyrir Zalgiris. Hann þurfti reyndar að bíða heillengi eftir því að fá bolta til að sparka í en lét það ekki trufla sig og skoraði af miklu öryggi úr vítinu, og Zalgiris vann svo vítaspyrnukeppnina. Upptöku frá leiknum má sjá hér að neðan.

Zalgiris varð á síðustu leiktíð meistari þriðja árið í röð auk þess að vinna einnig bikarkeppnina í Litháen.

Árni er fyrsti Íslendingurinn til að spila fyrir Zalgiris. Hann hefur nú skorað mark í sjö löndum því áður hafði Árni skorað mark fyrir lið í Frakklandi, Úkraínu, Póllandi, Svíþjóð, Noregi og á Íslandi, þar sem þessi 28 ára framherji hóf ferilinn með Breiðabliki.


Tengdar fréttir

Árni til litháísku meistaranna

Íslenski fótboltamaðurinn Árni Vilhjálmsson hefur samið við meistaraliðið í Litáen, Zalgaris. Samningur Árna við liðið gildir út þetta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×