Luis Fernando Camacho er ríkisstjóri Santa Cruz, auðugasta héraðs Bólivíu, og hægrisinnaður leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Hann tók þátt í að bola Evó Morales forseta úr embætti árið 2019. Fyrir það saka saksóknarar hann um hryðjuverk í ákæru sem var gefin út í október.
Camacho tapaði forsetakosningum fyrir vinstrimanninum Luis Arce árið 2020. Ríkisstjórnin skilgreinir atburðina sem leiddu til þess að Morales flúði land árið 2019 sem valdarán. Handtakan á Camacho í gær er sögð tengast rannsókn á því. Camacho sjálfur hefur neitað að gefa skýrslu í málinu og sagst vera fórnarlamb pólitískra ofsókna.
Undanfarinn mánuð hefur Camacho farið fyrir mótmælum gegn stjórnvöldum í Santa Cruz. Ástæða þeirra eru tafir á manntali en það myndi að líkindum færa Santa Cruz, sem er höfuðvígi stjórnarandstöðunnar, aukna hlutdeild í skattfé og fleiri sæti á þingi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Ólöglegt mannrán
Stuðningsmenn Camacho þustu út á götur og lokuðu vegum og hraðbrautum sem tengja Santa Cruz við aðra landshluta. AP-fréttastofan segir að langar raðir hafi myndast við bensínstöðvar þar sem fólk óttast að órói leiði til vöruskorts.
Engar upplýsingar fengust um handtökuna fyrr en að nokkrum klukkustundum liðnum. Skrifstofa ríkisstjórans sakaði lögreglu um að hafa rænt Camacho í óhefðbundinni aðgerð og farið með hann á óþekktan stað. Carlos Mesa, fyrrverandi forseti, líkti handtökunni einnig við ólöglegt og ofsafengið mannrán.
Camacho var einn leiðtoga fjölmennra mótmæla gegn Morales í kjölfar kosninga árið 2019. Samtök Ameríkuríkja sögðu að svik hefðu verið í tafli í kosningunum þar sem Morales sóttist eftir endurkjöri í fjórðia sinn.