Fótbolti

Mbappé skaut niður áhorfanda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe svekkir sig yfir klúðruðu færi í gær í undanúrslitaleik Frakklands og Marokkó.
Kylian Mbappe svekkir sig yfir klúðruðu færi í gær í undanúrslitaleik Frakklands og Marokkó. AP/Petr David Josek

Kylian Mbappé þurfti að biðjast afsökunar í upphitun fyrir undanúrslitaleik Frakklands og Marokkó á HM í Katar í gær.

Mbappé var ekki á skotskónum í 2-0 sigri Frakka en hann var í mjög strangri gæslu í leiknum. Það mátti kannski sjá vísbendingar um það fyrir leikinn að hann væri ekki með skotskóna reimaða á þennan daginn.

Þannig var að í upphitun hitti þrumuskot Mbappé ekki markið heldur áhorfanda sem segja má að hafi verið skotinn niður. Framherjinn frábæri er skotfastur og því fékk stuðningsmaður franska landsliðsins að kynnast heldur betur á eigin skinni.

Mbappé áttaði sig á því sem gerðist. Hann fór strax að biðja áhorfandann afsökunar og kanna hvort væri allt í lagi með hann. Það má sjá á myndunum hér fyrir neðan.

Mbappé er markahæsti leikmaður HM í Katar ásamt Lionel Messi en báðir hafa þeir skorað fimm mörk. Mbappé hefur hins vegar ekki skorað í síðustu tveimur leikjum Frakka á mótinu.

Mbappé átti engu að síður stóran þátt í báðum mörkunum sem komu eftir frákast skota hans.

Mbappé er aðeins 23 ára gamall en er samt að fara að spila sinn annan úrslitaleik á HM á sunnudaginn. Þar eru líka undir markakóngstitill og möguleg verðlaun fyrir besta mann mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×