Fótbolti

Vildi ekkert segja um mögu­lega endur­komu Benzema fyrir úr­slita­leikinn á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema átti alltaf að vera með Frökkum á þessu heimsmeistaramóti og sést hér í leikmannamyndatökunum.
Karim Benzema átti alltaf að vera með Frökkum á þessu heimsmeistaramóti og sést hér í leikmannamyndatökunum. Getty/Michael Regan

Karim Benzema, besti fótboltamaður ársins í Evrópu, missti af heimsmeistaramótinu vegna meiðsla. Eða hvað?

Orðrómur er um að Benzema snúi aftur í liðið fyrir úrslitaleikinn á móti Argentínu á sunnudaginn.

Miklar væntingar voru gerðar til Benzema í aðdraganda mótsins enda búinn að eiga frábært ár með Real Madrid og fékk á dögunum Gullhnöttinn sem sá besti á þessu ári.

Benzema varð hins vegar að draga sig út úr hópnum vegna meiðsla sem hann varð fyrir á æfingu landsliðsins rétt fyrir keppni. Hann tognaði aftan í læri sem er alltaf margra vika fjaravera. Benzema er hins vegar byrjaður að æfa með liði sínu Real Madrid á Spáni.

Frakkar hafa spjarað sig vel án hans á mótinu ekki síst fyrir frammistöðu Olivier Giroud sem hefur skorað fjögur mörk þar á meðal sigurmark á móti Englendingum.

Benzema er enn skráður í leikmannahópinn hjá Frökkum. Það má því sjá nafnið hans á öllum leikskýrslum Frakka þótt hann hafi ekki verið í Katar. Það er því eiginlega ekkert sem kemur í veg fyrir að hann spili úrslitaleikinn nema ákvörðun landsliðsþjálfarans.

Didier Deschamps, þjálfari Frakka, fékk spurningu á blaðamannafundi í gær, um mögulega óvænta endurkomu Benzema í hópinn fyrir úrslitaleikinn.

„Það hafa komið fréttir af því að Benzema sé kominn til Katar. Er það rétt og gætir þú mögulega notað hann í einhverjar mínútur í úrslitaleiknum,“ spurði blaðamaðurinn.

Deschamps þótti greinilega ekkert þægilegt að fá þessa spurningu en svaraði á eftirfarandi hátt.

„Ég vil ekki svara þeirri spurningu. Afsakaðu það en næsta spurning,“ sagði Didier Deschamps.

Karim Benzema var ekki með þegar Frakkar urðu heimsmeistarar 2018 en snéri aftur í landsliðið eftir fimm ár fjarveru í maí 2021.

Benzema hefur skorað 37 mörk í 97 landsleikjum fyrir Frakkland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×