Fótbolti

Sagði það sem öll argentínska þjóðin vildi segja við Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi varð svolítið meyr að hlusta á argentínsku fjölmiðlakonuna.
Lionel Messi varð svolítið meyr að hlusta á argentínsku fjölmiðlakonuna. Twitter

Argentínsk fjölmiðlakona spurði ekki aðeins Lionel Messi spurninga eftir sigur í undanúrslitaleiknum á móti Króatíu.

Messi var valinn maður leiksins í 3-0 sigri en hann skoraði fyrsta markið og lagði upp það síðasta með stórkostlegum hætti.

Messi er fyrir löngu kominn í guðatölu hjá Argentínumönnum en með sama áframhaldi á þessu heimsmeistaramóti þá er hann að fá sæti við hlið Diego Maradona í hjarta Argentínumanna.

Auk þess að spyrja Messi út í leikinn og framhaldið þá vildi fjölmiðlakonan Sofia Martinez hjá Television Publica einnig koma skilaboðum til Messi frá argentínsku þjóðinni.

Það er ekki hægt að sjá annað en að Messi verði svolítið meyr eftir að hafa hlustað á það sem hún sagði við hann.

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Messi með enskum texta.

„Það síðasta sem ég vil segja við þig er ekki spurning. Ég vildi fá að segja annað við þig,“ sagði Sofia Martinez.

„Úrslitaleikurinn á HM er næstur og auðvitað vilja allir Argentínumenn að við vinnum bikarinn. Ég vil samt segja þér að sama hver úrslitin verða það er eitt sem þeir geta aldrei tekið frá þér. Það er sú staðreynd að þú náðir að sameina og snerta hjörtu allra Argentínumanna. Það er ekki einn krakki sem á ekki treyjuna þína hvort sem hún er alvöru eða ekki,“ sagði Martinez.

„Þú hafðir góð áhrif á líf allra Argentínumanna og fyrir mér er það stærra en að vinna bikarinn. Enginn getur tekið það frá þér og ég vildi bara þakka þér fyrir fyrir alla þá hamingju sem þú hefur fært svo mörgu fólki. Ég vona að þú takir þessi orð til þín því ég trúi því virkilega að þetta er mikilvægara en að vinna heimsmeistarabikarinn og þú hefur þegar náð því,“ sagði Martinez eins og sjá má hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Messi orðinn markahæsti Argentínumaður HM frá upphafi

Lionel Messi varð í kvöld markahæsti leikmaður argentínska landsliðsins á HM frá upphafi þegar hann skoraði fyrsta mark liðsins í öruggum 3-0 sigri gegn Króatíu. Sigurinn kom argentínska liðinu í úrslit og Messi hefur nú skorað ellefu mörk á lokamóti HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×