Fótbolti

Lloris sendi Kane skilaboð eftir vítaklúðrið: „Ekki auðvelt að finna réttu orðin“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hugo Lloris reyndi að hugga liðsfélaga sinn hjá Tottenham eftir leik Frakklands og Englands.
Hugo Lloris reyndi að hugga liðsfélaga sinn hjá Tottenham eftir leik Frakklands og Englands. Eddie Keogh - The FA/The FA via Getty Images

Hugo Lloris, fyrirliði franska landsliðsins í knattspyrnu, segir það ekki hafa verið auðvelt að finna réttu orðin til að senda liðsfélaga sínum hjá Tottenham, Harry Kane, eftir að sá síðarnefndi misnotaði vítaspyrnu gegn Lloris í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar.

Kane tók tvær vítaspyrnur í viðureign Englands og Frakklands í átta liða úrslitum HM síðastliðinn laugardag. Enski landsliðsfyrirliðinn skoraði af öryggi úr fyrri spyrnunni, en sú síðari fór hátt yfir markið. Frakkar unnu að lokum 2-1 sigur og eru því á leið í undanúrslit á kostnað Englendinga.

Þrátt fyrir að hafa verið andstæðingar á laugardaginn hefa þeir Kane og Lloris verið liðsfélagar hjá Tottenha í að verða áratug. Þeir mæta saman til leiks með Tottenham er liðið heimsækir Brentford í ensku úrvalsdeildinni á öðrum degi jóla.

„Þetta er erfiður tími fyrir enska landsliðið og Harry,“ sagði Lloris á blaðamannafundi í dag.

„Við skiptumst á skilaboðum eftir leikinn. Það var ekki auðvelt að finna réttu orðin. Hann þarf smá tíma til að hvíla sig.“

„En ég held að hann geti verið stoltur af því sem hann hefur gert fyrir landsliðið. Ef við skoðum fótboltasöguna sjáum við að margir af bestu leikmönnum heims hafa klikkað á vítaspyrnum á sínum ferli - Lionel Messi, Cristiano Ronaldo - en ég efast ekki um það að Harry mun bera höfuðið hátt og hjálpa tottenham og landsliðinu að skína.“

Lloris og félagar mæta Marokkó í undanúrslitum HM annað kvöld, en Frakkar eru ríkjandi heimsmeistarar og eiga því titil að verja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×