Þessu kynnumst við í þættinum Um land allt á Stöð 2, þeim seinni af tveimur um Elliðavatnssvæðið. Í kaflanum sem hér fylgir hittum við meðal annars Einar Gíslason, annan stofnanda ET-flutninga, sem nýlega keypti húsakost á Geirlandi ásamt eiginkonu sinni, Diljá Eyjólfsdóttur.

Geirland byggðist upp sem nýbýli út frá Lækjarbotnum árið 1929. Þar voru kýr fram til ársins 1948 og sauðfé til ársins 1996 og útihúsin voru einnig nýtt sem hesthús.

Við röltum um sælureitinn sem þau Elín Guðrún Heiðmundsdóttir og Snorri Guðmundsson hafa skapað sér við Hólmsá skammt frá Geithálsi. Þar keyptu þau sumarbústað sem þau breyttu í heilsársheimili og umbyltu upphaflega garðinum. Heimili þeirra kallast Bakki en þéttur trjágróður skýlir þeim frá Suðurlandsvegi.

Á Geithálsi sýnir Friðþór Eydal okkur minjar um herbúðir þar sem skriðdrekasveit hélt til. Þar var einnig herfangelsi.
Þátturinn er endursýndur á Stöð 2 í dag, sunnudag, klukkan 15:25. Hér má sjá 11 mínútna kafla úr þættinum: