„Já, við ætlum okkur að „fela“ hótelið inni í landslaginu, eins og böðin,“ hefur Akureyri.net eftir Finni Aðalbjörnssyni. Finnur og eiginkona hans, Sigríður María Hammer, er aðaleigendur Skógarbaðanna í Eyjafjarðarsveit.
Hjónin hafa þegar lagt inn umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir svæðið og Finnur segir vel hafa verið tekið á móti þeim hjá bæjaryfivöldum og að hann sé bjartsýnn á að fá byggingarleyfi.
Fáist það verði strax fyrir jól hafist handa við gatnagerð og undirstöður steyptar næsta sumar. Stefnt verði að opnun árið 2024.
Þá segir hann að ætlunin hafi alltaf verið að reisa hótel við Skógarböðin þrátt fyrir að þau hjónin ætli sér ekki í hótelrekstur. „Ég ætla að reisa húsið, ég kann það, en reksturinn verður í höndum einhverra sem kunna að reka hótel," segir Finnur í samtali við Akureyri.net.