Spá hagfræðideildarinnar hljóðar upp á 0,5 prósentustiga hækkun á stýrivöxtum næstkomandi miðvikudag þegar næsta stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands verður kynnt. Gangi það eftir munu stýrivextir fara úr 5,5 prósent í sex prósent.
Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans þar sem fram kemur að hagfræðingar bankans telji ekki líklegt að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé lokið. Stýrivextir voru í sögulegu lágmarki í maí á síðasta ári, 0,75 prósent. Síðan þá hafa þeir farið stigvaxandi samhliða hækkandi verðbólgu.
Í ágúst voru stýrivextir hækkaðir um 0,75 prósentustig, úr 4,75 prósent í 5,5 prósent. Var það áttunda stýrivaxtahækkunin í röð. Sú níunda er því í farvatninu miðað við spá Landsbankans.
Í Hagsjánni segir að Seðlabankinn muni enn þurfa að herða aðhaldið með hækkunum vaxta til þess að koma í veg fyrir að mikil verðbólga festi sig í sessi. Verðbólga hefur farið lítillega hjaðnandi síðustu tvo mánuði og mælist ársverðbólga nú 9,3 prósent. Mest mældist hún í júlí, 9,9 prósent.
„Líkur á að hámark verðbólgunnar hafi verið nú í júlí teljum við vera mjög miklar og þarf ansi margt að ganga á svo að verðbólga mælist hærri en svo á næstu mánuðum. Það sem hefur mikil áhrif á verðbólguþróunina nú um stundir er sá mikli viðsnúningur sem hefur orðið á þróun fasteignaverðs,“ segir í Hagsjánni þar sem vísað er í að kólnun hafi orðið á fasteignamarkaði að undanförnu.
Þar er einnig vísað í að mikilvægt sé að peningastefnunefnd takist að draga úr verðbólguvæntingum, sem hafi tilhneigingu til að að rætast.