Skoðun

Einka­væðingu Vífils­staða skotið á frest

Kristófer Ingi Svavarsson skrifar

Föstudaginn 2. september var starfsfólk Vífilsstaða enn boðað á fund um rekstur og framtíð þeirra, eða Öldrunardeildar H í Landspítala, eins og Vífilsstaðir heita á vefsíðu sjúkrahússins. Á fundinum var mönnum tjáð að ekkert yrði úr áformum um að bjóða út þá starfsemi sem þar færi fram um „fyrirsjáanlega framtíð“. Engin skýring var gefin á þessari kúvendingu. Hvorki hvort enginn treysti sér til að einkareka Vífilsstaði, né hvort þessi tilraun hefði mætt mótspyrnu á stjórnarheimilinu. Þá var ekki fjallað um þá staðreynd að Sjúkratrygginar Íslands buðu alls ekki út þá starfsemi sem fram fer á Vífilsstöðum heldur annars konar þjónustu; rekstur líknardeildar og skammtíma- og hvíldardeildar fyrir roskið fólk.

Hins vegar var því heitið þrívegis að auglýst yrði eftir starfsfólki til að fylla skarð þeirra fjölmörgu sem horfið hafa burt undanfarið, meðal annars vegna útboðsáformanna.

Heilbrigðisráðherra tók svo af skarið og tjáði sig um þetta mál í Vísi í gær. Engin sinnaskipti ráðamanna, engin mótspyrna VG-flokksins í ríkisstjórn. Það bauð bara enginn í reksturinn! Og hin „fyrirsjáanlega framtíð“ nær aðeins fram yfir áramót! Það verður „ekkert úr þessu á þessu ári,“ en málið sé í biðstöðu, enda „um að ræða starfsemi sem Landspítalinn eigi ekki að vera í.“ Og ráðherra ítrekar: „Fyrir Landspítalann þá er þetta auðvitað, eins og kemur fram í McKinsey-skýrslu, rekstur sem spítalinn á ekki að vera að standa í.“

Auðvitað, auðvitað! „Annar eins maður og Oliver Lodge fer ekki með neina lygi.“

Auðvitað er löngu tímabært að öldrunarlæknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkraþjálfarar og óbreyttir strafsmenn sem árum saman hafa hjúkrað rosknum sjúklingum í sjúkrahúsi þjóðarinnar átti sig á þessum boðskap mr. McKinsey: Þið eigið ekki standa í þessu vafstri! Auðvitað eiga ættingjar og ástvinir þessara sjúklinga að átta sig á þessu líka. Reyndar segir heilbrigðisráðherra sjálfur í nýlegri grein um framtíð endurhæfingar að það sé „...skylda stjórnvalda að tryggja jöfn tækifæri allra til að búa við bestu heilsu sem mögulegt er og endurhæfing er þar eitt mikilvægasta verkfærið í verkfærakistunni okkar.“ Eiga sjúklingar á aldrinum 70-95 ára ekki rétt á þessu verkfæri, og öðrum, úr verkfærakistu ráðherrans (svo notað séu undarlegt myndmál hans sjálfs)? En til að hleypa þessu verkfæramáli af stokkunum hyggst ráðherra setja nefnd í málið; endurhæfingaráð!

Ég vil ítreka það sem ég sagði í liðlega vikugamalli grein hér í Vísi: Það sem vistmenn á Vífilsstöðum eiga sameiginlegt er að þeir eru svo sjúkir að þeir geta ekki dvalist heima hjá sér, þrátt fyrir heimahjúkrun og aðhlynningu ættingja og ástvina, en eru fæstir alveg í fjörbrotunum. Þetta fólk er ofurselt þeim þrautum sem iðulega fylgja ellinni og hljóta að teljast sjúkdómar. Allir þekkja böl kennt við þá James Parkinson og Alois Alzheimer, krabbamein, og alvarlega hjartasjúkdóma. En ótal aðrir vágestir gera gömlu fólki lífið leitt; svo sem byltubeinbrot, hatrömm gigt, hnjáslit, jafnvægisröskun, meltingartruflun og veruleikaskyn á hverfanda hveli. Svo sitthvað sé nefnt. Oft herjar margt af þessu á sjúklinginn samtímis.

Hvers vegna umönnun þessa fólks sé ekki hluti af „kjarnastarfsemi“ ríkisrekins háskólasjúkrahúss, eina sjúkrahúss landsmanna, er ofar mínum skilningi. Og hver er þessi "kjarni"? Eru öldrunardeildir í Landakoti og Fossvogi í honum, eða hyggjast menn bjóða rekstur þeirra út líka? Eða er "kjarninn" landfræðilegt hugtak en ekki læknisfræðilegt? Allt utan Reykjavíkur því utan hans?

Ég vil gjarnan fá svör við þessu. Ekki útúrsnúninga og stjórnmálaskæting, ekki þokukennda "framtíðarsýn" og aðrar klisjur, enga verkfærakassa, heldur rökföst viti borin svör. Eitt sinn átti íslenska þjóðin aðeins eina sameign sem metin var til fjár. Það var klukka. Sameign er skammaryrði í hugum margra. Landspítalinn er sameign þjóðarinnar, hann eiga allir, ungir og aldnir. En blikur eru á lofti! Vei þeim valdsherrum sem reyna að tortíma honum!

Höfundur er trúnaðarmaður Sameykis á Vífilsstöðum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×