Í umræðunni að undanförnu hefur verið rætt um að nýjan varaflugvöll þurfi suðvestanlands. En hvaða þýðingu hefur Reykjavíkurflugvöllur sem slíkur og þarf einhvern annan völl?
Í fréttum Stöðvar 2 segir Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri Icelandair, að þörf sé á varaflugvelli suðvestanlands.
„Það hefur bara gríðarlega mikla þýðingu fyrir Icelandair að nota Reykjavík sem varaflugvöll.“
Linda segir Icelandair nota hann í fjörutíu prósent tilvika, bæði fyrir 757 og 737-þotur félagsins, sem mynda níutíu prósent af flugflotanum.
„Ef við gætum ekki notað Reykjavík sem varaflugvöll þá værum við að nota Egilsstaði og Akureyri. Þar er mjög takmarkað pláss fyrir farþegaþotur. Hvor völlur um sig tekur einungis um fjórar vélar í einu. Þannig að þá værum við að nota varaflugvelli í Norður-Evrópu,“ segir yfirflugstjórinn.

Plássleysi á Reykjavíkurflugvelli sé þó einnig takmarkandi þáttur en þar áætli Isavia að hægt sé að leggja um tuttugu þotum.
„Eftir því sem varaflugvöllur er nær þeim flugvelli sem á að lenda á, í þessu tilviki Keflavík, þá þarf að bera minna eldsneyti, sem náttúrlega kostar minni peninga og það kostar líka minni útblástur.“
Með Reykjavíkurflugvelli sparist þannig háar fjárhæðir.
„Gróflega áætlað myndi kosta ca þrjú þúsund tonn af eldsneyti á ári, sem samsvarar tæplega tíu þúsund tonnum af koltvísýringi. Og ef við snúum þessu yfir í krónur og aura þá erum við að tala um einhversstaðar nálægt hálfum milljarði,“ segir Linda.
En þarf eitthvað að gera á Reykjavíkurflugvelli til að styrkja hann sem varaflugvöll?
„Það sem myndi nýtast okkur best er bara stærri flughlöð og betri innviðir. Flugstöð sem er til þess fallin að taka á móti millilandafarþegum og því sem þeim fylgir, eins og vopnaleit og landamæraeftirlit.“
En myndi það skaða hlutverk hans sem varaflugvallar ef Skerjafjarðarsvæðið yrði tekið undir íbúðabyggð?
„Eftir því sem þrengt er meira að vellinum þeim mun bara minni verða notkunarmöguleikar til framtíðar, klárlega. Byggingar nálægt flugvöllum hafa áhrif varðandi ókyrrð og annað slíkt,“ svarar yfirflugstjóri Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: