Innlent

Frítt í sund fyrir börn í Reykja­vík og mið­­næturopnanir í Laugar­­dals­­laug

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Frá og með 1. ágúst verður frítt í sund í Reykjavík fyrir börn á grunnskólaaldri og frá 4. ágúst byrjar tilraunaverkefni með miðnæturopnanir í Laugardalslaug á fimmtudagskvöldum.
Frá og með 1. ágúst verður frítt í sund í Reykjavík fyrir börn á grunnskólaaldri og frá 4. ágúst byrjar tilraunaverkefni með miðnæturopnanir í Laugardalslaug á fimmtudagskvöldum. Vísir/Vilhelm

Frítt verður í sundlaugar Reykjavíkur fyrir börn á grunnskólaaldri frá og með 1. ágúst 2022 en borgarráð samþykkti í dag svohljóðandi tillögu menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Einnig var samþykkt tillaga um miðnæturopnun á fimmtu­dags­kvöldum í Laugardalslaug frá og með 4. ágúst til áramóta.

Í samstarfssáttmála nýs meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar segir í fyrstu aðgerðum að ókeypis verði í sund fyrir börn á grunnskólaaldri og að aðgengi borgarbúa á öllum aldri að sundlaugum borgarinnar sé brýnt lýðheilsumál.

Nú verður þessu hrint í framkvæmd og verður sömuleiðis boðið upp á endurgreiðslu á kortum sem foreldrar og forráðamenn hafa keypt, jafnt 10 miða kortum og 6 eða 12 mánaða kortum fyrir börn. Kostnaðarauki vegna þessa á árinu er áætlaður 12 milljónir króna auk allt að 7,4 milljóna í endurgreiðslur. Kostnaðarauki fyrir árið 2023 er áætlaður 30 milljónir króna.

Tilraunir um miðnæturopnanir í Laugardalslaug

Miðnæturopnun á fimmtudagskvöldum í Laugardalslaug verður tilraunaverkefni til áramóta og lagt verður mat á reynsluna við undirbúning fjárhagsáætlunar 2023. 

Verkefnið er hluti af fyrstu aðgerðum meirihlutans samkvæmt meirihlutasáttmála og er gert ráð fyrir að kostnaðarauki vegna þessa til áramóta verði 2,5 milljónir króna, um 6 milljónir á ársgrundvelli. 

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að vonast sé til að miðnæturopnunin „geri góða sundlaugamenningu borgarinnar enn litskrúðugri og skemmtilegri.„“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×