Lífið

Rifja upp heilræði Russell Crowe um íslenska veðrið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ben Stiller ræddi um íslenska veðrið við Conan O'Brien.
Ben Stiller ræddi um íslenska veðrið við Conan O'Brien.

Heilræði ástralska leikarans Russell Crowe til bandaríska leikarans um íslenska veðrið hafa verið rifjuð upp á YouTube-síðu spjallþáttastjórnandans Conan O'Brien.

Gúrkutíðin er víða yfir sumartímann og þar er spjallþættirnir í bandarísku sjónvarpi engin undantekning.

Í myndbandi sem birt var í gær á YouTube-síðu O'Brien má sjá viðtal hans við bandaríska leikarann Stiller. Myndbandið, sem er frá 2013, er raunar aðeins endurbirting á hluta þess og sýnir eingöngu þann hluta þegar Stiller greindi frá heilræði sem Crowe gaf honum vegna íslenska veðursins.

Þeir félagar hittust hér á landi þegar Stiller var að hefja tökur á kvikmyndinni The Secret Life og Walter Mitty. Þá var Crowe nýbúinn að taka upp atriði fyrir stórmyndina Noah hér á landi.

„Gangi þér vel að taka upp myndina en ég verð að segja þér eitt. Þú verður að ráða yfir veðrinu [e. dominate the weather],“ sagði Stiller að heilræði Crowe hafi verið.

„Allt í lagi, Russel. Þú getur ráðið yfir veðrinu. Ég get kannski verið vinalegur við veðrið. Sýnt því að ég sé engin ógn og beðið það um að halda áfram,“ sagði Stiller að hann hafi sagt við Crowe, og uppskar hann mikinn hlátur.

Stiller sagði reyndar að Crowe hafi haft rétt fyrir sér. Íslenska veðrið breytist svo hratt að það sé ekki hægt að skipuleggja kvikmyndatökur í kringum það, eina vitið sé bara að halda fyrirfram ákveðnu skipulagi.

„Það kemur hvassviðri, svo er allt í einu komin sól en þá kemur rigning. Við fylgdum heilræði hans,“ sagði Stiller.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×