Undanfarna daga hefur verið talsvert um aflýsingar á flugferðum hjá íslensku flugfélögunum. Tveimur flugferðum PLAY var aflýst með mjög skömmum fyrirvara í dag og öðru fyrir helgi.
Neytendasamtökunum hafa borist margar kvartanir vegna þessa - einnig vegna frestana hjá Icelandair og Niceair í síðustu viku.
„Og því miður er það þannig að flugfélög hafa ekki alveg sagt rétt til um allan rétt sem farþegar eiga við þessar aðstæður,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Ef flugi er aflýst á fólk nefnilega rétt á því að fá það endurgreitt eða að fá nýtt flugfar út, hvort heldur sem er með upprunalega flugfélaginu eða að það kaupi flug með öðru flugfélagi.
Við þetta bætast svo bætur, að því gefnu að aflýsing flugferðarinnar skýrist ekki af óviðráðanlegum aðstæðum eins og náttúruhamförum, óveðri eða verkfalli þriðja aðila.
„Ef flug er fellt niður með minna en 14 daga fyrirvara á fólk líka rétt á því að fá skaðabætur sem nema allt frá 250 evrum og upp í 600 evrur, eftir því hversu langt flugið er,“ segir Breki.

Fyrir allar flugferðir sem er aflýst innan EES-svæðisins og eru lengri en 1.500 kílómetrar á fólk til dæmis rétt á skaðabótum upp á 400 evrur. Það gera um 55 þúsund íslenskar krónur. Þetta á við um báðar ferðir PLAY sem aflýst var í dag.
Oft má svo bæta við þetta gistingu, máltíðum og ýmsum kostnaði sem fólk þarf að taka á sig við þessar aðstæður.
Rétturinn er misjafn eftir aðstæðum og vegalengdum en hér á vef Neytendasamtakanna má finna svokallaðan flugreikni þar sem farþegar geta slegið inn þær aðstæður sem þær lenda í, bæði þegar flugferð er seinkað og aflýst, og séð hver réttur þeirra er.
Berki telur fólk almennt ekki meðvitað um þetta.
„Nei því miður. Fólk sem leitar til okkar og það hafa verið í dag bara nokkrir tugir. Það virðist ekki vera meðvitað um þetta,“ segir Breki.