Sjóðurinn VEX, sem er 10 milljarðar króna að stærð, I hefur hingað til fjárfest í þremur fyrirtækjum; Opnum Kerfum, AGR Dynamics og Annata, sem öll starfa í hugbúnaðar- og tæknigeiranum.
Í ársreikningi sjóðsins fyrir síðasta ár kemur fram að hann hafi keypt 41 prósenta eignarhlut í AGR Dynamics fyrir tæpan 1,1 milljarð sem verðmetur fyrirtækið á nærri 2,7 milljarða. AGR Dynamics, sem velti milljarði króna árið 2020 og er með um 70 starfsmenn, hefur þróað hugbúnað sem gerir söluspár fyrir heild- og smásala.
VEX keypti næst 100 prósenta hlut í Opnum kerfum, sem sérhæfir sig einkum í hýsingu- og rekstrarþjónustu tölvukerfa og sölu á vél- og hugbúnaði til fyrirtækja, á 650 milljónir króna. Skömmu síðar var greint frá samruna Opinna kerfa og Premis en samanlögð velta félaganna í fyrra var rúmlega fimm milljarðar króna.
Þá hafði komið fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins að fjárfesting VEX í Annata hefði numið tæpum 3,3 milljörðum króna. Sjóðurinn og meðfjárfestar hans keyptu helmingshlut fyrir alls 7,4 milljarða króna.
Annata, sem velti fimm milljörðum á síðasta ári, er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi. Hjá félaginu starfa um 200 starfsmenn á starfsstöðvum í 13 löndum. Starfsemi Annata felst í þróun og innleiðingu viðskiptahugbúnaðar í áskrift fyrir fyrirtæki í bíla- og tækjaiðnaði sem byggður er ofan á Azure skýjalausnir Microsoft.
VEX var stofnað af Trausta Jónssyni og Benedikt Ólafssyni en auk þeirra eiga tryggingafélagið VÍS og Bjarni Ármannsson, fjárfestir og forstjóri Iceland Seafood International, hlut í framtakssjóðastýringunni.
Sjóðurinn VEX I áformar að fjárfesta í fjórum til átta fyrirtækjum og að eignarhaldstími í hverju félagi verði á bilinu þrjú til sjö ár. Stærstu fjárfestarnir í sjóðnum eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 18 prósenta hlut hvor.
Í umfjöllun Innherja í janúar kom fram að framtakssjóðir hefðu safnað 51 milljarði króna á síðasta ári. Það er langstærsta upphæðin frá fjármálahruni og í ljósi þess að framtakssjóðir ruddu sér ekki til rúms hér á landi fyrr en eftir hrun er óhætt að segja að aldrei hafi jafnmikið fjármagn leitað í framtaksfjárfestingar.