Fjárfesting er drifkraftur hagvaxtar og nýsköpunar og hafa lítil en kraftmikil hagkerfi eins og hið íslenska notið góðs af fjárfestingu erlendra aðila í áranna rás. Aukið fjármagn, nýsköpun og sérfræðiþekking eykur samkeppnishæfni landsins, sérstaklega í ört vaxandi greinum, eins og hugverkaiðnaði, orkusæknum iðnaði og ferðaþjónustu, ásamt því að styðja við atvinnusköpun og örva svæðisbundna uppbyggingu. Ábyrg og sjálfbær fjárfesting erlendra aðila byggir upp öflugt hagkerfi til framtíðar og eflir samkeppnishæfni landsins.
Ísland býður upp á marga fjárfestingakosti en þeir erlendu aðilar sem vilja fjárfesta í verkefnum hér á landi þurfa oft að glíma við reglu- og stofnanaumhverfi sem er strangara en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við samkvæmt úttektum OECD. Bæði eru tilteknar atvinnugreinar nánast útilokaðar frá erlendri fjárfestingu, t.a.m. sjávarútvegur og orkuauðlindir, og einnig eru ýmsar reglur sem og framkvæmd í stjórnsýslunni, sérstaklega á sviði samkeppnis- og skattamála, mun flóknari en víðast hvar annars staðar og háðar meiri óvissu. Nú þegar ríkisstjórnin hyggst setja fjárfestingum erlendra aðila frekari skorður þarf að gæta þess að ganga ekki lengra en þarf og skerða ekki samkeppnishæfni Íslands, sérstaklega þeim sem koma frá löndum sem lúta sömu meginreglum og við.
Frumvarp um rýni á fjárfestingum erlendra aðila
Atvinnuvegaráðherra lagði fram frumvarp um rýni á fjárfestingar erlendra aðila í samráðsgátt í byrjun október 2025. Kemur það í kjölfar frumvarps sem forsætisráðherra lagði fram í febrúar 2024 er sætti gagnrýni úr mörgum áttum og náði ekki fram að ganga á þingi. Þessi lagasmíði byggist á umfangsmikilli vinnu sem hófst árið 2021 og tók mið af þróun á alþjóðlegum vettvangi, einkum í ríkjum innan OECD og Evrópusambandsins. Ríki hafa í síauknum mæli innleitt lagaramma til að vernda viðkvæma innviði og öryggishagsmuni gagnvart erlendu eignarhaldi. Þessi þróun birtist meðal annars í reglugerð ESB sem lagði grunn að samræmdum ramma aðildarríkja til að rýna erlendar fjárfestingar.
Brugðist við gagnrýni á fyrra frumvarp
Ánægjulegt er að sjá að við smíði hins endurbætta frumvarps hefur að nokkru leyti verið tekið mið af gagnrýni og stuðst hefur verið við þau sjónarmið er fram komu í umsögnum hagsmunaaðila við fyrra frumvarpið. Miklu máli skiptir að regluverkið verði ekki einungis tæki til að vernda öryggishagsmuni, heldur sé einnig fyrirsjáanlegt ásamt því að tryggja betur samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi. Þá er mikilvægt að forðast tvíverknað og óþarfa reglubyrði sem gæti skapað óhóflegar hindranir fyrir eðlileg viðskipti.
Ísland býður upp á marga fjárfestingakosti en þeir erlendu aðilar sem vilja fjárfesta í verkefnum hér á landi þurfa oft að glíma við reglu- og stofnanaumhverfi sem er strangara en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við samkvæmt úttektum OECD.
Nú er miðað við að tilkynningarskylda virkist við 25% eignarhlut erlends aðila en samkvæmt fyrra frumvarpinu var miðað við 10% þröskuld. Þessi breyting er mjög til bóta og í samræmi við reglur í samanburðarlöndum, t.a.m. Bretlandi og Írlandi.
Óskýrleiki og óvissa hamla fjárfestingum
Enn er þó í frumvarpinu að finna atriði sem þarf að ígrunda betur, sem óbreytt myndu flækja framkvæmd laganna verulega og hamla fjárfestingum og samstarfi. Skilgreiningin um tengda aðila samkvæmt frumvarpinu er afar rúm og inniheldur matskennda þætti og því erfitt að meta hvort 25% þröskuldinum sé náð. Þá er ljóst að skilgreining frumvarpsins á erlendum aðila mun taka til aðila sem alla jafna eru taldir íslensk fyrirtæki, þ.m.t. nokkur félög sem skráð eru á hlutabréfamarkað hér á landi. Þar sem tilkynningarskyldan á ekki bara við um fjárfestingu í eignarhlutum heldur einnig í sumum tilvikum við láns- og veðsamninga, sem og tiltekna samstarfs- og viðskiptasamninga, er ljóst að áhrifin verða afar víðtæk. Þá er í frumvarpinu enga undanþágu að finna varðandi fjármálafyrirtæki, sem þegar lúta ströngu eftirliti. Því getur sú staða hæglega komið upp að lánveitingar íslensku bankanna verði háðar samþykki stjórnvalda.
Hætt er við að of lágur þröskuldur leiði til tilkynningarskyldu vegna minni háttar fjárfestinga, jafnvel þótt lítil sem engin raunveruleg áhrif á stjórn, stefnu eða öryggishagsmuni séu fyrir hendi og þannig viðbúið að grafið yrði undan trúverðugleika fjárfestingarýni þegar skriffinnskan og fyrirhöfnin sem hún veldur er í litlu samræmi við tilefni og tilgang.
Ráðherra gegnir þar í reynd þríþættu hlutverki – sem regluveitandi, eftirlitsaðili og úrskurðaraðili, án utanaðkomandi aðhalds, sem grefur undan grundvallarreglum réttarríkisins.
Hefur að einhverju leyti verið brugðist við gagnrýni um að skilgreiningar á svokölluðum „viðkvæmum sviðum“ væru of víðtækar og óljósar. Eftir sem áður eru þær enn óskýrar, einkum um hvaða geirar myndu falla undir rýni. Er sérstaklega varhugavert að láta þróun tækni og hugverka falla þar undir án þess að kveða skýrt á um hvaða starfsemi við er átt. Verði fjármögnun og aðgangur að erlendri sérþekkingu og reynslu undir ráðherra sett þá getur slíkt skapað óvissu og hamlað fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarumhverfinu.
Ráðherra í öllum hlutverkum
Gagnrýnivert er að samkvæmt frumvarpinu skuli ráðherra vera falið að bæði afmarka gildissvið laganna með reglugerð, þ.á m. að skilgreina hvað teljist til þessara „viðkvæmu sviða“, og eins taka efnislega ákvörðun um hvort ráðstöfun skuli heimiluð, synjað eða vera háð skilyrðum. Ráðherra gegni þar í reynd þríþættu hlutverki – sem regluveitandi, eftirlitsaðili og úrskurðaraðili, án utanaðkomandi aðhalds, sem grefur undan grundvallarreglum réttarríkisins. Einnig er vert að gagnrýna tímalengd málsmeðferðar samkvæmt frumvarpinu sem er til þess fallin að auka óvissu og hættu á óhóflegum töfum, sem kemur til viðbótar við aðra fresti samkvæmt samkeppnis- og skattalögum.
Er ríkjum Evrópu og OECD ekki treystandi?
Í nýja frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra geti í reglugerð undanskilið erlenda aðila frá samstarfs- eða bandalagsríkjum frá tilkynningarskyldu samkvæmt lögunum, sem er til bóta frá fyrra frumvarpi. Hefði þó verið eðlilegra, skilvirkara og einfaldara að undanskilja fjárfesta frá EES, ESB og OECD ríkjum frá skyldu til rýni fyrir fjárfestingar, enda deila þau sameiginlegum markaði og lagaumhverfi með Íslandi og náið pólitískt samstarf er milli ríkjanna.
Er sérstaklega mikilvægt að umgjörðin um fjárfestingarýni verði samræmd við eftirlitsstofnanir líkt og Samkeppniseftirlitið og Skattinn eins og kostur er.
Loks ber að gagnrýna að frumvarpið hafi verið lagt fram án þess að fyrir liggi heildstætt mat á efnahagslegum áhrifum þess eða greining á samspili við önnur lög og stefnumál stjórnvalda, sem er sérlega bagalegt í ljósi þess að Ísland býr nú þegar við strangari hömlur á erlenda fjárfestingu en flest ríki innan OECD.
Séríslenskar kröfur hindra erlenda fjárfestingu
Því ber að fagna að við vinnu atvinnuvegaráðherra hafi að nokkru leyti verið tekið mið af þeirri gagnrýni sem kom fram í tengslum við fyrra frumvarpið. En gera má enn betur. Sérstaklega ber að forðast stranga og íþyngjandi löggjöf gagnvart aðilum sem þegar lúta sameiginlegu og traustu regluumhverfi. Sé of langt gengið í kröfum eða takmörkunum gæti það dregið úr áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi, skert aðgengi að erlendu fjármagni og þannig þrengt möguleika íslensks atvinnulífs til vaxtar, nýsköpunar og alþjóðlegrar þróunar.
Lög um fjárfestingarýni geta verið öflugt tæki til að tryggja þjóðaröryggi en aðeins ef þau byggjast á skýrum reglum, faglegri málsmeðferð og samstarfi við aðrar stofnanir. Er sérstaklega mikilvægt að umgjörðin um fjárfestingarýni verði samræmd við eftirlitsstofnanir líkt og Samkeppniseftirlitið og Skattinn eins og kostur er. Sé kerfið óljóst, íþyngjandi eða í ósamræmi við gildandi regluverk getur það unnið gegn tilgangi sínum og fælt í burtu erlenda fjárfestingu.
Fjárfestingarýni á ekki að hindra vöxt heldur vera forsenda þess að Ísland haldi áfram að vera öruggt, opið og samkeppnishæft samfélag.
Höfundur er lögmaður og meðeigandi hjá BBA//Fjeldco í London.