Fall Play hafði þær afleiðingar til skamms tíma að um 500 manns misstu vinnuna hjá flugfélaginu sjálfu en til viðbótar bætast við stórar uppsagnir fyrirtækja við tengda þjónustu, svo sem Airport Associates. Þá kreppir skóinn í sjávarútvegi, að hluta tengt ytri aðstæðum en einkum vegna mikillar hækkunar á veiðigjöldum. Sjávarútvegsfélögin eru því í hagræðingargír en Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum tilkynnti í vikunni um sölu á togara og fjöldauppsagnir. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi mældist 5,7 prósent ágúst og einsýnt er að aukning verði í mælingum fyrir september og október.
Vaxtastigið hér á landi þokast afar hægt niður og ávöxtun á hlutabréfamarkaði er neikvæð á árinu, meðan markaðir í Evrópu og Bandaríkjunum eru í hæstu hæðum.
Raunvaxtastigið er of hátt fyrir hagkerfi sem er augljóslega að kólna hratt um þessar mundir og sá grunur læðist því eðlilega að mörgum að Seðlabankinn hafi verið of upptekinn við að horfa í baksýnisspegilinn.
Nú á síðustu dögum hafa komið tvær afkomuviðvaranir hjá skráðum félögum með tilheyrandi verðfalli á gengi bréfa þeirra. Rekstrarerfiðleikar Sýnar halda áfram og stórt veðmál félagsins á Enska boltann hefur enn ekki gengið eftir. Þar skiptir vissulega máli bráðabirgðaákvörðun Fjarskiptastofu að skylda félagið að heimila stærsta leikandanum á markaði dreifingu á því sjónarvarpsefni með fyrirsjáanlegum neikvæðum áhrifum á rekstrar- og tekjuáætlanir Sýnar.
Alvarlegra fyrir efnahagslífið eru þó tíðindin af slælegri afkomu Icelandair. Einsýnt er að Icelandair þarf að óbreyttu að ráðast í hagræðingaraðgerðir. Þar gæti bæst í hóp atvinnulausra en einnig reynst þörf á að draga saman framboð af flugi til og frá landinu. Áhrifin af því munu að sjálfsögðu smitast yfir á ferðaþjónustuna í heild sinni – og þá um leið gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins.
Allir hagvísar benda núna til þess að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi ekki sýnt nægjanlega framsýni við vaxtaákvarðanir sínar að undanförnu. Raunvaxtastigið er of hátt fyrir hagkerfi sem er augljóslega að kólna hratt um þessar mundir og sá grunur læðist því eðlilega að mörgum að Seðlabankinn hafi verið of upptekinn við að horfa í baksýnisspegilinn. Það þarf að breytast.
Þá má líka velta því fyrir sér hversu lengi ríkisstjórnin heldur vinsældum við þessar aðstæður.
Sleggjunni beitt á streymisveitur
Kostulegt er að fylgjast með brölti hins opinbera þegar kemur að því að jafna leikvöllinn á fjölmiðlamarkaði, án þess að hreyfa í nokkru við Ríkisútvarpsfílnum í herberginu.
Menningarmálaráðherra kynnti á dögunum um nýja skattheimtu á erlendar streymisveitur sem eiga að afla ríkissjóði 150 milljónum á ársgrundvelli. Til samanburðar hefur utanríkisráðherra úthlutað um 210 milljónum í styrki á síðustu vikum, meðal annars til alþjóðasamtaka hinsegin fólks og til byggingar á hjólastólarömpum í Úkraínu.
Þessar 150 milljónir eru ólíklega að breyta miklu í starfsemi erlendra streymisveita á Íslandi, að öðru leyti en því að verð til heimilanna munu hækka um sömu tölu. Aðgerð menningarmálaráðherra skiptir því fjölmiðla í landinu nákvæmlega engu máli, en mun sennilega skila sér rakleitt í verðbólguna.
Hvað varð um sleggjuna góðu?
Ráðgjafinn er innanbúðarmaður sem tekur púlsinn á stöðunni innan stjórnmála og atvinnulífs.