Tveir byssumenn skutu Marcelo Pecci til bana á ferðamannaströndinni Barú, suður af borginni Cartagenu í Kólumbíu. Eiginkona hans, Claudia Aguilera, segir að hann hafi ekki fengið neinar hótanir í aðdraganda morðsins. Mennirnir tveir hafi nálgast þau á einkaströnd en síðan skotið hann.
„Tveir menn réðust á Marcelo. Þeir komu á litlum bát eða sæþotu, sannast sagna sá ég það ekki vel,“ sagði Aguilera.
Annar árásarmannanna hafi farið frá borði og skotið Pecci tvisvar, einu sinni í andlitið og einu sinni í bakið, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Mario Abdo Benítez, forseti Paragvæ, lýsti árásinu sem „hugleysislegu morði“. Augusto Salas, starfsbróðir Pecci, segir að árásin virðist dæmigerð mafíuárás. Hann líti á árásina sem slíka þar til annað komi í ljós. Lögreglumenn frá Paragvæ eru komnir til Kólumbíu til að rannsaka morðið. Bandarísk stjórnvöld hafa boðið fram aðstoð sína við rannsóknina.
Pecci sérhæfði sig í rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi, peningaþvætti, fíkniefnasmygli og fjármögnun hryðjuverka. Hann rak meðal annars mál gegn brasilíska knattspyrnumanninum Ronaldinho sem var handtekinn fyrir að reyna að koma til Paragvæ á fölsuðu paragvæsku vegabréfi árið 2020.
