Sem er frábært. Því auðvitað er ekkert nema jákvætt við það að hvetja starfsfólk og hópa til að hlæja og hafa gaman í vinnunni. Á þeim forsendum að það sé gott fyrir árangurinn!
Á flestum vinnustöðum, vonandi öllum, er það þó partur af vinnudeginum að hlæja svolítið með vinnufélögunum og hafa gaman.
En hvernig getum við hvatt fólk til þess að nýta hláturinn meira og markvisst í vinnunni?
Í grein Harvard Business Review eru vinnustaðir og þá ekki síst stjórnendur hvattir til að stuðla að meiri hlátri í vinnunni því það skili sér í betri frammistöðu og meiri árangri.
Já, vinnustöðum er beinlínis ráðlagt að taka hláturinn „alvarlega.“
Við skulum rýna í málin.
Stjórnendur með húmor
Það fyrsta sem við þurfum að horfa á eru stjórnendurnir sjálfir. Því eftir höfðinu dansa limirnir.
Þannig hafa rannsóknir sýnt að stjórnendur sem teljast skemmtilegir eru 27% áhrifameiri þegar kemur að því að efla fólk til dáða og njóta virðingar starfsfólks.
Þá sýna rannsóknir að starfsfólk sem telur yfirmann sinn skemmtilegan mælist 15% tryggari vinnustaðnum í samanburði við starfsfólk sem upplifir yfirmann sinn ekki skemmtilegan.
Rannsóknir sýna líka að teymi sem eru með skemmtilegan stjórnanda eru tvöfalt líklegri en önnur teymi til að ná árangri og leysa úr erfiðum málum eða áskorunum.
Hvers vegna virkar hlátur?
Það má samt velta því fyrir sér hvers vegna og hvernig nákvæmlega hláturinn er að ná þessum aukna árangri.
Er það bara vegna þess að okkur finnst þá svo gaman í vinnunni eða?
Nei, fleira telst reyndar til. Því í umræddri grein Harvard Business Review segir líka að hláturinn skili sér í svo mörgum jákvæðum afleiðum í vinnunni.
Hann getur til dæmis verið ísbrjótur ef það er kynning, erfitt samtal eða fundur. Ef fólk hlær í upphafi verða allir afslappaðri og samskipti, hlustun eða þátttaka verður betri í kjölfarið.
Þá hafa rannsóknir sýnt að þegar að fólk er að kynnast, getur það skipt sköpum að byrja á léttu nótunum með hlátri því það tryggi að öll samskipti og tengsl verða meiri og betri fyrir vikið.
Hlátur er líka smitandi fyrirbæri. Sem hefur þau líkamlegu áhrif á okkur að við losum okkur við streitu og spennu.
Hlátur framleiðir endorfín sem mynda sælutilfinningu svipað og eftir hugleiðslu, æfingu eða kynlíf svo eitthvað sé nefnt.
Hvernig húmoristi ert þú?
En hvernig getum við hvatt fólk til að vera skemmtilegra í vinnunni og hlæja meira? Fólki er jú mis eðlislægt að vera á léttu nótunum.
Eða hvað?
Hið rétta er þó að við eigum öll til okkar skemmtilegu eða fyndnu hliðar. Birtingarmynd þeirra er hins vegar mismunandi og ef ætlunin er að vinna markvisst af því að draga fram léttleikann á vinnustað er gott ef allir byrja á því að meta hvar þeirra eigin styrkleikar liggja í þessu.
Hér getum við því metið okkur sem húmorista miðað við eftirfarandi lýsingar á vinnufélögum:
Frakki húmoristinn – oftast sá fyndnasti
Þetta er fyndni starfsmaðurinn sem er frakkur, hnyttinn í tilsvörum og snöggur að svara, óhræddur við að fleygja fram einhverjum setningum sem eru líklegar til að kalla fram hlátur.
Mjúki húmoristinn – oft mjög brosmildur
Þetta er starfsmaðurinn sem er ekkert endilega að fleygja fram einhverjum bröndurum en er með jákvæða og góða nærveru, brosir mikið og er mjög einlægur karakter. Oft fer lítið fyrir þessum húmorista sem þó á sér mjög fyndnar hliðar þótt hann/hún fari sparlega með.
Leyniskyttan – svarti húmorinn
Þetta er starfsmaðurinn sem er með svartan húmor. Sem ekki allir skilja á meðan aðrir fíla húmorinn í botn. Oft er húmor þessa aðila svolítið kaldhæðinn en birtingarmyndin er oftar en ekki setningar sem viðkomandi fleygir fram á óvæntum stundum.
Sjarmerandi húmoristinn - sá/sú sem geislar af gleði
Þetta er starfsmaðurinn sem er með svo jákvæða og mikla útgeislun að fólk eins og laðast að viðkomandi ósjálfrátt. Sjarmerandi húmoristinn er ekkert endilega að reyna að vera fyndinn og skemmtilegur en útgeislunin er bara svo mikil að fólk upplifir viðkomandi þannig að hann/hún hreinlega geisli alla daga af gleði.
Mögulega er auðveldara að fá vinnufélaga til að renna yfir þennan lista og meta með okkur í hvaða flokki maður er. Að minnsta kosti gæti sú leið virkað fyrir marga sem eru ekki viss hvaða lýsing á best við mann sjálfan.
Í umræddri grein er fólk líka hvatt til að setja sér markmið um að vera skemmtilegasta útgáfan sem því langar til að vera.
Til dæmis gæti einhver sem telur sig vera í Mjúka húmorista flokknum, sett sér markmið um að verða að Sjarmerandi húmoristanum ef það er sú lýsing sem viðkomandi langar meira að vera í.
Því öll stjórnum við okkur sjálf og hverjum langar ekki að vera svolítið skemmtilegur?