Ríki Evrópusambandsins, Bandaríkin, Bretland, Kanada og fleiri ríki gripu til þess ráðs um helgina að loka fyrir aðgengi Rússa að SWIFT greiðslukerfinu en kerfið er notað við miðlum fjármuna milli alþjóðlegra banka. Jón Bjarki Bentsson, yfirhagfræðingur hjá Íslandsbanka, útskýrði kerfið í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Einfaldasta lýsingin er að þetta er eins og Facebook Messenger á sterum fyrir fjármálakerfið. Þetta er skilaboðakerfi sem er notað af alþjóðafjármálaheiminum til að senda skilaboð á milli um alls konar fjárhagslegar millifærslur,“ sagði Jón Bjarki.
Sem dæmi kemur kerfið að notum þegar einhver hér á landi vill senda einhverjum erlendis fjármuni en þá sendir bankinn SWIFT skilaboð til viðskiptabanka þess sem er úti.
„Þetta einfaldar svo mikið allt flæði fjármuna milli landa, peningarnir sjálfir fara ekki í gegnum Swift kerfið,“ sagði Jón Bjarki en kerfið er mjög útbreitt og langflestir bankar treysta á það þannig áhrifin eru töluverð fyrir Rússa.
„Það sem þetta hefur í för með sér að það verður í sumum tilfellum nánast ómögulegt, og í öllum tilfellum miklu flóknara, fyrir útflytjendur í Rússlandi að fá greitt fyrir orku, eldsneyti, hveiti, pálma, hvað sem þeir eru að flytja út, og að sama skapi mjög erfitt að kaupa og borga fyrir alls konar innflutning,“ sagði Jón Bjarki. „Þannig þetta sker þá.“
Allir muni finna fyrir aðgerðunum
Í síðustu viku gripu Vesturlöndin til umfangsmikilla refsiaðgerða gegn Rússum en meðal annars voru eignir rússneskra banka frystar.
Jón Bjarki segir að aðgerðirnar styðji hvor aðra og bendir þannig á að Seðlabanki Rússlands hafi verið að safna miklum gjaldeyrisforða, sem nemur nærri 40 prósent af landsframleiðslu Rússlands.
„Einn tilgangur með þessari söfnun var að búa sig undir það að geta brugðist við einhvers konar efnahagslegum refsiaðgerðum en nú er svona sú varaleið, hún er svolítið bækluð,“ sagði Jón Bjarki. „Stór hluti af gjaldeyrisforðanum er allt í einu utan þeirra áhrifasviðs.“
Þá er ákveðin hætta á því að refsiaðgerðirnar bitni mest á almenningi í Rússlandi, til að mynda með hækkandi vöruverði. Slíkt er þegar byrjað að gerast og það hratt.
„Þetta er að vinda svo hratt upp á sig að það munu allir í Rússlandi finna fyrir þessum aðgerðum býsna fljótt.“