Gervihnöttunum var skotið á loft þann 3. febrúar með Falcon 9 eldflaug frá Flórída. Þeir voru settir á braut um jörðu í um 210 kílómetra hæð en það er gert svo gallaðir gervihnettir geti verið látnir brenna upp í gufuhvolfinu með auðveldum hætti, samkvæmt SpaceX, í stað þess að þeir bæti á þann ruslahaug sem er þegar á braut um jörðu.
Ef gervihnettirnir virka sem skildi eru þeir færðir á hærri sporbraut.
Þann 4. febrúar lentu gervihnettirnir þó í segulstormi upp í gufuhvolfinu. Vegna þess er talið að allt að fjörutíu af 49 gervihnöttum séu ekki á nægilegum hraða til að halda sér á sporbraut.
Segulstormar auka loftmótstöðu í gufuhvolfinu og samkvæmt útreikningum starfsmanna SpaceX er útlit fyrir að loftmótstaða í kjölfar geimskotsins í síðustu viku hafi verið um helmingi (helmingi, ekki tvöfalt) meiri en við hefðbundnar kringumstæður.
Segulstormar myndast í stuttu máli þegar rafsegulgeislun frá sólblossa berst til jarðarinnar. Áhugasamir geta lesið frekar um segulstorma hér á Vísindavefnum.
Í tilkynningu frá SpaceX, sem er í eigu auðjöfursins Elons Musk, segir að verið sé að vinna í því að bjarga þeim gervihnöttum sem hægt er að bjarga.
Umdeildir gervihnettir
Eins og fram kemur í frétt The Verge hefur SpaceX skotið fleiri en tvö þúsund Starlink-gervihnöttum á braut um jörðu en þeim er ætlað að veita fólki um heim allan aðgang að interneti. SpaceX hefur sagt að til standi að skjóta þúsundum gervihnatta til viðbótar á braut um jörðu. Fyrirtækið hefur fengið leyfi fyrir allt að tólf þúsund gervihnöttum.
Sjá einnig: Ekki Tesla heldur SpaceX sem muni gera Musk að billjónamæringi
Stjörnuvísindamenn hafa þó miklar áhyggjur af ætlunum SpaceX og hafa í nokkur ár kvartað yfir því að gervihnettirnir komi niður á geimvísindum. Meðal annars komi gerivhnettirnir niður á myndum úr útvarpssjónaukum.
Í frétt Guardian er bent á að meðal annarra hafi Josef Aschbacher, yfirmaður ESA, Geimvísindastofnunar Evrópu, lýst yfir áhyggjum af ætlunum Starlink. Hann sagði í desember að Musk væri að semja eigin reglur í geimnum og kallaði eftir samhæfðum aðgerðum frá Evrópusambandinu til að koma í veg fyrir að Starlink-gervihnettirnir kæmu í veg fyrir að önnur ríki gætu skotið gervihnöttum á loft.
Þá kvörtuðu ráðamenn í Kína nýverið yfir því að færa hefði þurft nýja geimstöð Kínverja vegna hættu á árekstri við gervihnött SpaceX.