Fótbolti

Ótrúleg endurkoma Atletico Madrid

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Hetjan Hermoso í baráttunni
Hetjan Hermoso í baráttunni EPA-EFE/Rodrigo Jimenez

Atletico Madrid mætti Valencia í kvöld í spænsku úrvalsdeildinni, La Liga. Spænsku meistararnir hafa ekki verið að ná góðum úrslitum undanfarið en unnu ótrúlegan sigur í kvöld, 3-2, eftir að hafa lent tveimur mörkum undir.

Til mikils var að vinna fyrir Atletico Madrid sem gat með sigri komist í fjórða sæti deildarinnar, sem gefur meistardeildarsæti. Valencia siglir hins vegar lygnan sjó um miðja deild en forráðamenn liðsins eru væntanlega ekki ánægðir með það.

Gestirnir frá Valencia byrjuðu mun betur og komust yfir á 25. mínútu leiksins. Þar var á ferðinni Yunus Musah sem fékk boltann í skyndisókn og kláraði færið vel.

Hlutirnir versnuðu bara fyrir heimamenn því að á 44. mínútu komst Valencia í 0-2. Nú var það Hugo Duro sem skoraði eftir að hafa sloppið óvænt í gegn eftir darraðadans á vítateigslínu Atletico. Staðan 0-2 í halfleik og útlitið dökkt fyrir spænsku meistarana.

Madrídingar klóruðu í bakkann á 64. mínútu þegar að Matheus Cunha skoraði eftir hornspyrnu. Cunha fékk einhvernvegin boltann meter frá markinu og þakkaði fyrir sig. Afleitur varnarleikur.

Það var svo ekki fyrr en á 90. mínútu sem Atletico jafnaði leikinn með marki frá Angel Correa sem skoraði eftir að Jaume Domenech hafði varið skot frá Luis Suarez. Atletico tókst svo á ótrúlegan hátt að vinna leikinn með marki frá Mario Hermoso á 93. mínútu. Cunha átti þá fasta fyrirgjöf sem Hermoso skilaði í markið. Gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Atletico Madrid sem fór upp í fjórða sætið með sigrinum. Valencia situr í níunda sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×