Það vakti nokkra athygli í fjölmiðlum í morgun þegar frásögn birtist í dagbók lögreglu um átákanlegar ógöngur heimilislauss manns.
Þar sagði um atvik sem varð klukkan tvö í nótt: „Óskað eftir aðstoð lögreglu að hóteli í hverfi 101 þar sem starfsfólk var í vandræðum með ofurölvi mann. Maðurinn gistir venjulega í aðstöðu á vegum Reykjavíkurborgar en hefur verið í straffi þar síðustu daga og gistir núna á götunni í -7 gráðu frosti. Maðurinn fékk gistingu í fangageymslu lögreglu.“
Sigþrúður Erla Arnardóttir hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar segir það ekki svo að maðurinn sé sendur út í kuldann án þess að tryggt sé að hann fái gistingu annars staðar.
„Þegar eitthvað kemur upp á eins og ofbeldi gagnvart starfsfólki eða á milli gesta, höfum við haft samband við lögreglu og við vísum ekki gestum út nema þegar við vitum að viðkomandi geti þá fengið aðstöðu hjá lögreglu eða í öðru neyðarskýli,“ segir Sigþrúður.
Þegar hafi verið búið að tilkynna lögreglu um að maðurinn gæti ekki verið í gistiskýlinu og því þyrfti hann gistingu hjá lögreglu. Sá sem hafi síðan skrifað dagbókarfærsluna virðist ekki hafa haft upplýsingar um þetta.
„Þarna er eitthvað sem lögreglan þarf bara að skoða því það er greinilegt að það eru mismunandi skilaboð sem eru að fara þarna á milli,“ segir Sigþrúður.
Af ýmsum sökum kemur það fyrir að skjólstæðingar eru sendir burt í ákveðinn tíma til að róa sig en þeir eiga svo yfirleitt afturkvæmt eftir viðtal. Þegar það er ekki svo er það unnið í samstarfi við lögreglu.
„Við erum að finna með starfsmannahópnum, hvað þeir taka því illa þegar svona fréttir koma þegar þeir telja sig hafa farið alveg rétt að og unnið þetta í samstarfi, þá er þetta mjög mikið högg fyrir starfsmannahópinn að fá svona fréttaflutning. Af því að þeim er annt um skjólstæðingana og gestina sem eru að koma inn í neyðarskýlið,“ segir Sigþrúður.