„Við viljum bara sýna fólki innsýn í störf lögreglunnar og sýna hvað störf lögreglunnar eru fjölbreytileg og þess vegna verður mjög áhugavert að fylgjast með Twitter í kvöld,“ sagði Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Jú, verkefni lögreglu reyndust fjölbreytt allt frá tilkynningu um flutningabíl með heyrúllur í hættu í þungri umferð að tilkynningum um heimilisofbeldi.
Þriggja bíla árekstur í mikilli umferð á einni af aðalgötum borgarinnar. Tveir fluttir burtu með dráttarbifreið. Förum varlega #löggutíst
— LRH (@logreglan) December 17, 2021
Færslur lögreglu voru alls 80 í gærkvöld og í nótt en 73 tilkynningar eða verkefni. Nokkur umferðaróhöpp urðu, þar á meðal þriggja bíla árekstur, árekstur og afstungu, og nokkur umferðaróhöpp þar sem ökumaður var grunaður um ölvun.
Tilkynnt um umferðaróhapp í umdæminu þar sem grunur er um ölvun við akstur #löggutíst
— LRH (@logreglan) December 18, 2021
Ökumaður óskar eftir aðstoð eftir að hafa ekið á kött, er í miklu uppnámi, eins og eðlilegt er.#löggutíst
— LRH (@logreglan) December 18, 2021
Umferðaróhapp v.verslun í borginni - gerandi talinn ölvaður og er að reyna að fara af vettvangi.#löggutíst
— LRH (@logreglan) December 18, 2021
Ökumaður handtekin vegna gruns um ölvun við akstur. Ökumaðurinn færður á lögreglustöð, tekið blóðsýni og lykli komið í örugga geymslu. Lykilinn fær eigandi afhentan sé hann allsgáður þegar hann kemur og sækir #löggutíst
— LRH (@logreglan) December 18, 2021
386 blésu í ölvunartékki í miðborginni. 2 voru handteknir, grunaðir um ölvun við akstur. 1 fékk sekt fyrir að nota farsíma við akstur.#löggutíst
— LRH (@logreglan) December 17, 2021
Aðili handtekinn vegna ölvunaraksturs, bifreiðinni lagt í stæði og kveikjuláslyklar settir á lögreglustöð í hverfinu #eftireinneiakineinn #löggutíst
— LRH (@logreglan) December 17, 2021
Umferðarslys í austurborginni. Ökumaður grunaður um ölvun og vistaður í fangageymslu vegna málsins #löggutíst
— LRH (@logreglan) December 17, 2021
Tilkynnt um árekstur og afstungu - tjónþoli eltir þann sem ók utan í og óskar eftir aðstoð lögreglu. #löggutíst
— LRH (@logreglan) December 17, 2021
Lögreglan tísti á tíunda tímanum í gærkvöldi að hún hafi séð rásandi bifreið á akstri og talið ástæðu til að kanna málið. Mikinn áfengisþef hafi lagt af ökumanninum og hann átt erfitt með að tjá sig. Sá var talsvert ölvaður og í ljós kom að hann hafði aldrei fengið bílpróf.
Lögregla veitti athygli rásandi bifreið í akstri og taldi ástæðu til að kanna með ástand ökumanns. Mikinn áfengisþef lagði af ökumanni og átti hann erfitt með að tjá sig. Kom í ljós að ökumaður var töluvert ölvaður og hafði aldrei öðlast ökuréttindi #löggutíst
— LRH (@logreglan) December 17, 2021
Lögreglu barst þá tilkynning um ölvaðan einstakling sem gekk inn á veitingastað, datt á borð og sofnaði í kjölfarið. Þetta var ekki eina skiptið sem lögregla var kölluð til í nótt vegna sofandi manns, en leigubílstjóri leitaði aðstoðar lögreglu þegar farþegi sofnaði í aftursætinu hjá honum og bílstjóranum tókst ekki að vekja hann.
Tilkynnt um ölvaðan einstakling sem kom inn á veitingastað - datt á borð og sofnaði í kjölfarið. #löggutíst
— LRH (@logreglan) December 17, 2021
Leigubílstjóri var í vandræðum með viðskiptavin sem fékk sér blund í aftursætinu. Viðskiptavinurinn svaf svo fast að bílstjórinn náði ekki að vekja hann. #löggutíst
— LRH (@logreglan) December 18, 2021
Ungt par varð fyrir líkamsárás í nótt og er gerandans nú leitað. Þá var yfirstandandi heimilisofbeldi stöðvað í nótt og einn fluttur í fangageymslu. Óskað var eftir aðstoð lögreglu þar sem maður sást reyna að draga konu inn í bíl gegn vilja hennar. Lögregla fór á vettvang.
Ungt par verður fyrir líkamsárás - gerenda leitað.#löggutíst
— LRH (@logreglan) December 18, 2021
Yfirstandandi heimilisofbeldi stöðvað. Einn fluttur í fangageymslu. #löggutíst
— LRH (@logreglan) December 18, 2021
Óskað eftir lögreglu á vettvang þar sem maður sé að reyna að draga konu inn í bíl gegn vilja sínum. Við á vettvang.#löggutíst
— LRH (@logreglan) December 18, 2021