Fótbolti

Xavi til­kynntur sem nýr stjóri Barcelona fyrir framan tugi þúsunda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Joan Laporta og Xavi er sá síðarnefndi var tilkynntur sem nýr þjálfari Barcelona í dag.
Joan Laporta og Xavi er sá síðarnefndi var tilkynntur sem nýr þjálfari Barcelona í dag. Pedro Salado/Getty Images

Í dag tilkynnti Barcelona með pompi og prakt að Xavi væri nýr þjálfari liðsins. Allt að 25 þúsund manns mættu á Nývang er Joan Laporta, forseti félagsins, bauð Xavi velkominn heim.

Hinn 41 árs gamli Xavi er í guðatölu hjá Barcelona enda vann hann allt sem hægt var að vinna með félaginu og var fyrirliði þess um tíma. Xavi er næstleikjahæstur í sögu Barcelona með 767 leiki.

Eftir að hafa unnið þrennuna með Barcelona 2015 fór Xavi til Al Sadd í Katar. Þar lék hann í fjögur ár og tók svo við liðinu 2019. Undir hans stjórn vann Al Sadd einn meistaratitil og tvo bikarmeistaratitla í Katar.

Talið er að Barcelona hafi þurft að greiða Al Sadd rúmar fimm milljónir evra til að losa Xavi undan samningi. Samningur hans við Barcelona gildir til sumarsins 2024.

Xavi er spenntur fyrir komandi verkefni en segir mikla vinnu framundan. Barcelona er í 9. sæti La Liga, spænsku úrvalsdeildarinnar, með aðeins 17 stig eftir 12 leiki. Þá er liðið í 2. sæti E-riðils Meistaradeildar Evrópu með sex stig að loknum fjórum umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×