Talið er að um sé að ræða skíðishval sem er yfirtegund fjórtán mismunandi hvalategunda. Vísindamenn stefna á að skera úr um aldur og tegund hvalsins á morgun þegar sýni verður jafnframt tekið úr hræinu.
Þetta staðfestir Guðbrandur Örn Arnarson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg en björgunarsveitir hafa stundum tekið þátt í því að reyna að koma lifandi hvölum aftur á flot.

„Ef dýrið er dautt og hræið er nálægt byggð þá þarf yfirleitt annað hvort að draga það út á sjó eða urða það á staðnum, þetta er heilbrigðismál í raun og veru,“ segir Guðbrandur í samtali við Vísi en takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um hvalinn að svo stöddu.
Hann telur ólíklegt að frekar verði aðhafst í nótt en Landsbjörg mun ekki koma frekar að málinu þar sem dýrið sé ekki á lífi. Guðbrandur segir að flókið ferli taki við þegar hvalur finnist á landi og málið sé nú komið í farveg hjá Hafrannsóknarstofnun, Umhverfisstofnun, heilbrigðiseftirlitinu, lögreglu og fleiri aðilum.
Fréttin var uppfærð með mynd af hvalhræinu.