Fótbolti

Franska ungstirnið á leið til Madrídar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eduardo Camavinga mun spila í hvítu í vetur.
Eduardo Camavinga mun spila í hvítu í vetur. Silvestre Szpylma/Getty Images

Franski miðjumaðurinn Eduardo Camavinga er á leið til Real Madríd. Þetta staðfestir ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano. Real ku greiða rúmlega 30 milljónir evra fyrir þennan 18 ára gamla miðvallarleikmann.

Camavinga hefur spilað alls 88 leiki fyrir lið sitt Rennes í Frakklandi þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefði orðið samningslaus næsta sumar og því ákvað Rennes að fá eitthvað fyrir sinn snúð og selja kappann nú þegar.

Miðjumaðurinn ungi var eftirsóttur af fjölmörgum liðum í Evrópu en svo virðist sem Real hafi skotið þeim öllum ref fyrir rass. 

Spænska félagið borgar rúmar 30 milljónir evra fyrir leikmanninn. Einnig eru árangurstengdar greiðslur í samkomulagi félaganna svo ef til vill verður kaupverðið hærra þegar fram líða stundir.

Camavinga á að baki þrjá A-landsleiki og fjóra leiki með U-21 árs landsliði Frakka. Þar á meðal í lokakeppni EM sem fram fór í sumar.

Hann mun nú skrifa undir hjá Real hvað á hverju og á eflaust að fríska upp á annars aldna miðju sem inniheldur til að mynda hinn 35 ára gamla Luka Modrić.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×