Fótbolti

Christian Eriksen ætlar sér að spila fótbolta aftur í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Eriksen sést hér léttur á æfingasvæði Inter.
Christian Eriksen sést hér léttur á æfingasvæði Inter. inter.it

Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen ætlar ekki að leggja knattspyrnuskóna á hilluna þrátt fyrir að hafa lent í hjartastoppi í leik með danska landsliðinu á EM.

Eriksen var lífgaður við á vellinum í Kaupmannahöfn og fluttur á sjúkrahús þar sem græddur var gangráður í hann. Danska liðið komst alla leið í undanúrslit keppninnar án hans og hann náði að heimsækja liðið áður en mótinu lauk.

Eriksen er leikmaður Internazionale á Ítalíu og flaug til Ítalíu í vikunni til að hitta forráðamenn félagsins og samherja sína hjá ítölsku meisturunum.

Ítalska félagið sagði leikmanninn vera í góðu ástandi bæði líkamlega og andlega. Í dag bárust síðan fréttir af því að danski miðjumaðurinn ætli sér að halda fótboltaferli sínum áfram.

Eriksen fylgir ráðum lækna sinna í Kaupmannahöfn og þeir munu halda áfram að fylgjast með honum í samvinnu með ítalska félaginu.

Það var tekið vel á móti Eriksen á æfingasvæði Inter og hann er staðráðinn að snúa aftur á völlinn.

„Þetta gekk vel hjá mér. Ég mun spila fótbolta aftur eftir fjóra til fimm mánuði,“ er haft eftir Christian Eriksen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×