Fótbolti

Mourinho gagnrýnir tölvuleikjaspilun knattspyrnumanna: Fortnite er martröð

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Mourinho er mættur til starfa á Ítalíu á nýjan leik.
Mourinho er mættur til starfa á Ítalíu á nýjan leik. vísir/getty

Portúgalski knattspyrnustjórinn Jose Mourinho tók við ítalska úrvalsdeildarliðinu AS Roma í sumar og bíða stuðningsmenn félagsins með mikilli eftirvæntingu eftir því að fylgjast með liðinu í Serie A undir stjórn Mourinho.

Mourinho var vel tekið í Róm þegar hann var kynntur til félagsins fyrr í sumar og hann hefur lagt sig fram við að ná stuðningsmönnum félagsins á sitt band.

Þessi fyrrum stjóri Tottenham, Man Utd, Chelsea, Real Madrid, Inter og Porto hefur verið sýnilegur á samfélagsmiðlum félagsins og myndband af honum svara hraðaspurningum hefur vakið kátínu knattspyrnuáhugafólks.

Í myndbandinu sem sjá má hér fyrir ofan segir Mourinho meðal annars frá því að uppáhalds tónlistarmennirnir hans séu Bruce Springsteen og Bryan Adams.

Hann gagnrýnir einnig tölvuleikjaspilun knattspyrnumanna þegar hann er spurður út í tölvuleikinn vinsæla, Fortnite.

„Fortnite er martröð. Fótboltamenn vaka alla nóttina til að spila þetta drasl og eiga svo leik daginn eftir,“ segir Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×