Fótbolti

Andstæðingar Blika hyggjast reisa styttu af Ferguson

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sir Alex Ferguson er sigursælasti knattspyrnustjóri Bretlands frá upphafi.
Sir Alex Ferguson er sigursælasti knattspyrnustjóri Bretlands frá upphafi. EPA-EFE/PETER POWELL

Skoska knattspyrnufélagið Aberdeen hyggst reisa styttu af goðsögninni Sir Alex Ferguson fyrir utan heimavöll félagsins, Pittodrie. Ferguson er sigursælasti knattspyrnustjóri í sögu félagsins.

Ferguson tók við Aberdeen árið 1978 og stýrði liðinu til skosks meistaratitils tveimur árum síðar, vorið 1980. Félagið vann tvo slíka titla til viðbótar undir hans stjórn, 1984 og 1985, en hefur ekki orðið skoskur meistari síðan.

Þá vann Aberdeen fjóra bikartitla undir stjórn Fergusons, einn deildarbikartitil og Evrópukeppni bikarhafa 1983 eftir sigur á Real Madrid í úrslitum. Eftir góðan árangur sinn með félaginu tók Ferguson við Manchester United árið 1986 hvar hann var næstu 27 árin og vann 13 Englandsmeistaratitla.

Aberdeen hyggst nú heiðra Ferguson með því að reisa bronsstyttu af honum fyrir utan heimavöll sinn.

Hún verður hins vegar ekki risin þegar Breiðablik heimsækir Pittodrie í þarnæstu viku. Aberdeen og Breiðablik drógust saman í þriðju umferð Sambandsdeildar Evrópu eftir sigur Blika á Austria Vín í kvöld, og mætast í tveimur leikjum.

Sá fyrri er á Kópavogsvelli 5. ágúst en sá síðari á Pittodrie í Aberdeen 12. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×