Erlent

Reyndi að ganga til New York en rak á land í Flórída

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hér má sjá hamstrahjólið, eins og því hefur verið lýst, sem Baluchi ætlaði að ferðast í.
Hér má sjá hamstrahjólið, eins og því hefur verið lýst, sem Baluchi ætlaði að ferðast í. Twitter/FlaglerSheriff

Heppnin var ekki með manni á fimmtugsaldri sem ætlaði að ganga til New York frá Flórída, yfir sjóinn, í heimagerðu hamstrahjóli sem útbúið var flothylkjum.

Þetta er ekki fyrsta skiptið sem Reza Baluchi hefur gert tilraun til þessa, heldur það þriðja. Þriðja skiptið gekk ekki betur en svo að hann var kominn um 40 kílómetra á leið þegar hann þurfti að snúa aftur í land í St. Augustine.

Meðferðis hafði hann þriggja vikna birgðir en hann komst að því sólarhring eftir að hann lagði af stað að auka GPS-tækið sem hann hafði meðferðis og hleðslusnúrur höfðu horfið í sjóinn. Hann hafi því neyðst til að snúa aftur í land.

Hér má sjá Baluchi við fararskjótann.Facebook/Reza Baluchi

Við honum tóku furðulostnir strandargestir sem gátu ekki annað en hlegið að honum, Baluchi til mikillar mæðu.

„Ég opna dyrnar og hoppa út,“ segir hann í samtali við New York Times. „Þau hlæja að mér. Þau eru að taka myndir af mér. Ég veit hvað ég er að gera. Ég er ekki heimskur.“

Baluchi hefur verið búsettur í Bandaríkjunum í nokkur ár en er frá Íran, þar sem hann var atvinnureiðhjólamaður. Baluchi segir í samtali við Times að hann hafi fengið hæli í Bandaríkjunum en hafi síðan þá upplifað heimilisleysi og frekari erfiðleika.

Hann hafi ætlað að „ganga“ til New York gegn áheitum til styrktar heimilislausum, Landhelgisgæslu Bandaríkjanna, lögreglunni og slökkviliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×