Sóli segir frá aðdragandanum á Facebook en drengurinn var fæddur á Akranesi vegna mikilla anna á fæðingardeildinni á Hringbraut.
„Sagan er þannig að ekki var hægt að hefja gangsetningu á Viktoríu í gærmorgun vegna mikilla anna á fæðingardeildinni á Hringbraut og þar sem hún var komin 13 daga fram yfir settan dag vildum við ekki tefja þetta meira. Því tókum við þá skyndiákvörðun í gærmorgun að Viktoría myndi fara í gangsetningu á Akranesi og fæða barnið þar,“ segir Sóli.
Þau fóru því upp á Skaga þar sem gangsetningin var hafin. Þau fengu þá að fara heim en áttu að mæta aftur upp á Skaga síðar um kvöldið. Klukkan hálf fimm hafi Viktoría þó misst vatnið og þau brunað af stað.
„Á Kjalarnesinu var okkur þó hætt að lítast á blikuna og þar sem þetta stóð tæpt og ég einkar löghlýðinn ökumaður og borgari almennt, sáum við þann kostinn vænstan í samráði við 112 að fá sjúkrabíl til að koma á móti okkur við Hvalfjarðargöngin svo barnið myndi nú ekki fæðast úti í vegkanti,“ skrifar Sóli.
Klukkustund síðar var „stór og pattaralegur drengur kominn í heiminn“ og gleðin nú alls ráðandi á heimili parsins. Drengurinn er þeirra annað barn sem þau eiga saman en fyrir áttu þau dótturina Hólmfríði Rósu sem fæddist árið 2019. Fyrir átti Viktoría dótturina Birtu og Sóli drengina Baldvin Tómas og Matthías.