Innlent

Á­byrgð á eftir­­liti með vott­orðum færð yfir á flug­­fé­lög

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Frá og með laugardeginum fer enginn inn í Icelandair-vél nema með fullgilt vottorð um að hann sé ekki með Covid-19.
Frá og með laugardeginum fer enginn inn í Icelandair-vél nema með fullgilt vottorð um að hann sé ekki með Covid-19. vísir/vilhelm

Flug­fé­lög sem fljúga til Ís­lands verða frá og með næsta laugar­degi að neita þeim um flutning til landsins sem geta ekki sýnt fram á full­gilt vott­orð um bólu­setningu fyrir Co­vid-19, fyrri sýkingu eða nei­kvæða niður­stöðu úr sýna­töku.

Hingað til hefur þessi skylda ekki legið á flug­fé­lögunum og því hafa ein­hverjir lent á flug­vellinum sem ekki hafa for­skráð sig eða verið með nauð­syn­leg full­gild vott­orð. Þeim hefur þá verið neitað um komu inn fyrir landamærin og vísað til baka.

Geti far­þegar ekki fram­vísað til­skildu vott­orði til flug­fé­laganna áður en þeir fara um borð í vélina verða flug­fé­lögin að neita þeim um flutning til Ís­lands. Þetta nær þó ekki til ís­lenskra ríkis­borgara.

Reglu­gerðin er sett með stoð í bráða­birgða­á­kvæði við loft­ferða­lög sem var sam­þykkt á þingi í síðasta mánuði, sem heimilar sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra að setja reglu­gerð um tíma­bundnar skyldur flug­rek­enda eða um­ráð­enda loft­fars til að tryggja sótt­varnir gegn Co­vid-19.

Hún verður endur­skoðuð á fjögurra vikna fresti en um­rætt bráða­birgða­á­kvæði í loft­ferða­lögum gildir út árið.

Skyldur flug­rek­enda og um­ráða­manna loft­fara sam­kvæmt reglu­gerðinni eru eftir­taldar:

  • Skylt er að kanna hvort farþegi hafi fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tilskilið viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð gegn Covid-19, vottorð um að Covid-19-sýking sé afstaðin eða vottorð eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu Covid-19 prófs áður en farið er um borð í loftfar, enda hafi slík skylda verið lögð á farþega á grundvelli sóttvarnalaga.
  • Skylt er að synja farþega um flutning geti hann ekki framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu. Skylda til að synja farþega um flutning nær ekki til íslenskra ríkisborgara. Slík synjun felur ekki í sér neitun um far á grundvelli Evrópureglugerðar um skaðabætur eða aðstoð til farþega sem neitað er um far þegar flugi er aflýst, seinkað eða flýtt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×