Í tilefni alþjóðlega mannauðsdagsins 20.maí 2021, fjallar Atvinnulífið á Vísi um það helsta framundan í mannauðsmálum vinnustaða í kjölfar Covid og bólusetninga.
Í dag er rætt við formann Mannauðs, Ásdísi Eiri Símonardóttur, en á morgun heyrum við í fjórum mannauðstjórum um hvað þeir telja að verði mest áberandi breytingin í mannauðsmálum, í samanburði við fyrir Covid.
Mikilvægt að fara ekki í sömu gömlu hjólförin
Ásdís, sem er menntaður vinnusálfræðingur og starfar sem mannauðsráðgjafi hjá Orkuveitu Reykjavíkur, segir þær raddir orðnar hærri að tilgangur fyrirtækja felist ekki einungis í því að skila sífellt meiri hagnaði til hluthafa.
Þessar raddir heyrist ekki aðeins á Íslandi, heldur um allan heim.
„Það eru ákveðin kaflaskil í alþjóðlegu samhengi og fyrirtæki líta í auknum mæli svo á að tilgangur þeirra sé að skila virði til samfélagsins, hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og fólkið sem starfar hjá því,“ segir Ásdís.
Að sögn Ásdísar hefur atvinnulífið lært á tímum heimsfaraldurs, hversu hratt vinnustaðir geta breyst krefjist ytri aðstæður þess.
Allt í einu þurfti stór hluti starfsfólks að aðlaga sig fjarvinnu meðan starfsfólk í framlínu þurfti að gjörbreyta skipulagi og vinnulagi.
Öll þurftum við að tileinka okkur nýja tækni til samskipta, samhliða því að hlúa að andlegri heilsu og rembast við að viðhalda einhvers konar jafnvægi vinnu og einkalífs á fordæmalausum tímum.“
Hins vegar er mikilvægt að atvinnulífið nýti sér þennan lærdóm og forðist að falla aftur í gömul hjólför.
Besta leiðin til að forðast það, segir Ásdís felast í því að stjórnendur leggi áherslu á að hlusta vel á starfsfólkið sitt.
„Við þurfum að skapa vinnustað þar sem ríkir traust og sálfræðilegt öryggi svo fólk geti tjáð sig, og stjórnendur þurfa að staldra við og virkilega hlusta á fólkið sitt. Hvað er búið að vera frábært við undanfarin misseri? Hvað hefði verið hægt að gera betur? Hverjar eru áskoranir þínar akkúrat núna? Hæfni í að hlusta og bregðast við því sem starfsfólk segir mun skipta sköpum í að byggja upp eftirsóknarverðan vinnustað sem laðar til sín besta fólkið,“ segir Ásdís.

Auðvelda fólki að ná árangri í starfi
Aðspurð um það hvað Ásdís telji líklegt að verði áberandi áhersla í mannauðsmálum næstu tvö til þrjú árin, segir Ásdís líklegt að mannauðsfólk muni vinna við kortlagningu og mótun upplifunar starfsfólks (e. employee experience).
Enda segir Ásdís framsæknustu fyrirtækin nú þegar farin að leggja mikla áherslu á úrbótaverkefni sem tengd eru slíkri upplifun.
Þau verkefni liggja þvert á fyrirtækið og snúa að því að auðvelda starfsfólki að ná árangri í starfi, líða vel í vinnunni, einfalda samvinnu og samskipti og efla vinnustaðamenningu.“
Í þessum málum segir Ásdís mikilvægt að hugsa snjallt og stafrænt þar sem stilla þarf saman áherslur í stjórnun, mannauðsmálum, upplýsingatækni, aðbúnað, öryggismálum og fleira.
Þá segir Ásdís að til framtíðar muni það skipta sköpum fyrir samkeppnishæfni fyrirtækja hvernig fyrirtækin munu nýta þá þekkingu, hæfni og færni sem þau hafa innanborðs.
„Er starfsfólk fast í úreldum starfslýsingum eða er ákveðinn sveigjanleiki og hreyfanleiki til staðar? Mannauðsfólk þarf að leiða stefnumiðaða vinnu við að endurskilgreina hvað við gerum og hvernig við nálgumst ólík hlutverk. Getur ákveðinn hópur starfsfólks kannski nýst í öðrum verkefnum tímabundið? Getum við nýtt færni starfsfólks þvert á fyrirtækið í þeim verkefnum sem mest liggur á hverju sinni? Hvernig ætlum við að tryggja að starfsfólk nýti styrkleika sína í starfi?,“ nefnir Ásdís sem dæmi um þær spurningar sem vinnustaðir þurfa að velta fyrir sér.
Loks hvetur Ásdís mannauðsfólk til að taka virkan þátt í að móta nýja framtíð starfa og vinnustaða.
„Sveigjanleiki og aðlögunarhæfni starfsfólks hefur sjaldan verið mikilvægari en nú, og það er spennandi áskorun fyrir mannauðsfólk að leiða þessa þróun,“ segir Ásdís.