Fótbolti

Messi bauð öllu Barcelona liðinu í mat heim til sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar öðru marka sinna á móti Valencia með félögum sínum í Barcelona liðinu.
Lionel Messi fagnar öðru marka sinna á móti Valencia með félögum sínum í Barcelona liðinu. AP/Alberto Saiz

Barcelona og Atletico Madrid mætast um næstu helgi og Börsungar komast upp fyrir Atletico með sigri á Nývangi.

Það er mikilvæg vika framundan fyrir Barcelona því liðið mætir Atletico Madrid um komandi helgi í einum af úrslitaleikjunum um meistaratitilinn í spænska fótboltanum í ár. Lionel Messi bryjaði undirbúninginn á því að bjóða öllum heim til sín í gær.

Barcelona tapaði óvænt á móti Granada á fimmtudaginn í síðustu viku en bætti fyrir það með því að vinna 3-2 sigur á Valencia um helgina. Lionel Messi var að sjálfsögðu með tvö mörk í leiknum og er þar með kominn með 28 mörk í deildinni á tímabilinu.

Messi hefur farið fyrir endurkomu Barcelona sem hefur minnkað þrettán stiga forskot Atletico Madrid niður í aðeins tvö stig. Liðið verður að vinna Atletico á laugardaginn ætli liðið sér titilinn.

Messi ákvað að reyna að þjappa hópnum saman eftir æfingu og bauð öllu Barcelona liðinu í mat heim til sín eftir æfingu í gær en þetta kemur fram á ESPN. Messi býr í Castelldefels sem er borg við sjóinn rétt fyrir utan Barcelona.

Messi bauð ekki aðeins leikmönnunum sjálfum heldur máttu þeir koma með konurnar sínar líka. Markmiðið var að efla mannskapinn og auka samheldnina með því að hittast á nýjum stað. Það verður fróðlegt að sjá hverju þetta óvenjulega matarboð skilar.

Það er enginn leikur hjá Barcelona í þessari viku eins og í vikunni á undan og þjálfarinn Ronald Koeman gaf leikmönnum frí frá æfingu í dag. Næst æfing er ekki fyrr en annað kvöld.

Barcelona kemst stigi fram úr Atletico Madrid með sigri á laugardaginn en þar með er ekki öll sagan sögð.

Barcelona er eins og er með jafnmörg stig og Real Madrid. Real hafði aftur á móti betur í innbyrðis leikjum liðanna á leiktíðinni og verður því alltaf ofar endi liðin jöfn. Real Madrid þarf því líka að tapa stigum ætli Barcelona að vinna spænska meistaratitilinn í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×