Fótbolti

Fót­bolta­guðirnir með Atlético í liði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Atlético fagna því sem reyndist vera sigurmarkið.
Leikmenn Atlético fagna því sem reyndist vera sigurmarkið. EPA-EFE/Manuel Lorenzo

Marcos Llorente tryggði Atlético Madrid gríðarlega mikilvægan 1-0 útisigur á Elche í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, í dag. Mikil dramatík var í uppbótartíma leiksins.

Luis Suarez hafði komið boltanum í netið fyrir gestina á 16. mínútu en markið var dæmt af. Sjö mínútum síðar skoraði Llorente hins vegar eftir sendingu Yannick Carrasco og það mark stóð.

Staðan 1-0 toppliðinu í vil og þannig var hún í hálfleik. Þannig var hún raunar allt til leiksloka en á fyrstu mínútu uppbótartíma fengu heimamenn gullið tækifæri til að jafna. Llorente var þá hársbreidd frá því að fara úr hetju í skúrk en hann fékk knöttinn í hendina innan vítateigs og vítaspyrna dæmd.

Fidel Chaves steig á punktinn fyrir Elche en spyrna hans fór í stöngina og út. Inn vildi boltinn ekki og Atlético vann ómetanlegan 1-0 sigur.

Atlético er því með fimm stiga forystu á bæði Real Madrid og Barcelona en síðarnefndu liðin eiga bæði leik til góða. Atlético á fjóra leiki eftir í deildinni en Real og Barca eiga fimm hvort. Sevilla kemur svo í 4. sætinu með 70 stig.

Elche hefði þurft á stigi að halda í dag en liðið er sem stendur í fallsæti á markatölu. Real Valladolid er með jafn mörg stig og Deportivo Alaves er þar stigi fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×