„Að lokum vil ég segja við poppstjörnur í eldri kantinum, sem hafa áhyggjur af þögn þingmanna um Samherja, að það þarf öflug fyrirtæki, sem geta gert mikil verðmæti úr auðlindum okkar, til að greiða ykkur um hálfa milljón á mánuði í heiðursskyni til æviloka.“
Þannig lýkur pistli Brynjars sem birtist nú fyrirstundu á Vísi. Þingmaðurinn leggur þannig skæðan krók undir kjamma Bubba, gott ef ekki högg undir beltisstað líka, en Bubbi er meðal þeirra sem þiggja heiðurslaun listamanna. Bubbi hefur vakið athygli að undanförnu fyrir að hvetja menn til dáða; að láta ekki óttann stjórna sér í tengslum við mál Samherja. Þá ekki síst í tengslum við andóf Samherja vegna frétta Helga Seljan og fleiri af málum tengdum fyrirtækinu.
Telur stjórn Gagnsæis úti á túni
Brynjar gerir að umfjöllunarefni ýmsar skærur sem sjávarútvegsfyrirtækið Samherja hefur staðið í meðal annars með þeim afleiðingum að Íslandsdeild Transparency Iceland eða Gagnsæi sent frá sér ályktun um framgöngu fyrirtækisins sem hún telur í langvarandi stríðsrekstri gegn samfélaginu.
„Það félag hefur verið óþreytandi að segja heiminum frá því að við séum spilltari en aðrir þótt öllum sé ljóst sem kynna sér málin að svo er ekki,“ segir Brynjar og telur hér öllu á haus snúið. Ljóst megi vera að stjórn Gagnsæis sé á allt annarri vegferð en að berjast gegn spillingu. Brynjar telur vert að rifja upp fyrir þeirri stjórn og öðrum stríð Samherja og Seðlabankans og stríðsreksturinn almennt. „Allir viðrast vera búnir að gleyma sögunni og staðreyndum málsins.“
Samsæriskenningar fréttamanna RÚV
Og það gerir Brynjar að hætti hússins, segir það „stríð“ hafa byrjað með því að Seðlabankinn hafi vaðið inn i fyrirtækið með lögregluvaldi í mars 2012 og hafið rannsókn á meintum brotum Samherja.
„Virðist sem grundvöllur hennar hafi verið samsæriskenningar frá fréttamönnum Ríkisútvarpsins, sem hafa ekki reynst hingað til traustir uppljóstrarar.
Til að gera langa sögu stutta reyndist þetta vera sneypuför hin mesta samkvæmt niðurstöðu dómstóla og umboðsmanns Alþingis. Eftir stendur að þetta misheppnaða ferðalag olli verulegu fjárhagstjóni fyrir Samherja, auk þess sem átökin sköðuðu mjög ímynd félagsins að ósekju.“
Brynjar segir að stjórn Gagnsæis ætti að hafa það í huga að Samherjamenn hafi byrjað „með tvær hendur tómar og keppt á markaði með aflaheimildir eftir reglum sem ríkisvaldið, sem fer með yfirráð allra auðlinda landsins, setti.“
Þingmaðurinn telur vert að halda því til haga að atvinnuvegir séu forsenda þess að hér er hægt að halda úti velferðar- og styrkjakerfi.