Haraldur Pétursson, rekstarstjóri Þykkvabæjar, segir í samtali við Vísi að fyrirtækið hafi ákveðið að breyta nafninu þar sem það hafi talist vera á gráu svæði.
„Samkvæmt samkeppnislögum mega vörur ekki vera á tilboði lengur en í sex vikur. Þegar vörur eru á tilboði þarf líka að lýsa fyrra verði.“

Við vorum í hvorugu tilfellinu að tikka í þau box þannig að við ákváðum að breyta nafninu. Þar sem varan er búin að heita Tilboðsfranskar í tugi ára þá var þetta tvíbent, hvort við værum laganna megin eða ekki. Til að taka af allan vafa þá breyttum við þessu og látum þær heita Þykkvabæjarfranskar. Þetta er sama varan, en heitir ekki lengur Tilboðs-,“ segir Haraldur.
Fyrsta ábendingin vegna nafnabreytingarinnar
Haraldur segist ekki telja að fólk muni sakna nafnsins sérstaklega og að símtal fréttastofu sé það fyrsta sem berst fyrirtækinu vegna nafnabreytingarinnar.
Haraldur segir vöruna mjög vinsæla, enda hafi hún verið lengi á markaði. „Lúkkið er það sama þrátt fyrir nafnabreytinguna. Það er heldur engin hækkun á verði eða neitt slíkt. Allt annað óbreytt, bara nýtt nafn,“ segir Haraldur.