Erlent

Lög­regla hefur rann­sókn á sótt­varna­brotum Sol­bergs

Atli Ísleifsson skrifar
Forsætisráðherrann Erna Solberg á á hættu að fá sekt vegna brotanna.
Forsætisráðherrann Erna Solberg á á hættu að fá sekt vegna brotanna. EPA

Lögregla í Noregi hefur hafið rannsókn á sóttvarnabrotum norska forsætisráðherrans Ernu Solberg. Greint var frá því í gær að Solberg hafi gerst brotleg við reglur þar sem hún settist til borðs með þrettán öðrum þegar hún hélt upp á sextugsafmæli sitt í lok febrúar.

Norskir fjölmiðlar greina frá rannsókn lögreglunnar í morgun. Til stóð að Solberg myndi setjast til borðs með þrettán öðrum á veitingastað vegna afmælis síns, en þegar til kastanna kom missti Solberg af kvöldverðinum.

Síðar hafi hún hins vegar sest til borðs með þessum þrettán í leiguíbúð, en samkvæmt gildandi sóttvarnareglum í Noregi mega að hámarki tíu manns koma saman.

Solberg hefur beðist afsökunar á því að hafa brotið reglur og fullyrt að hún hafi einfaldlega ekki verið meðvituð um að verið væri að brjóta reglur með umræddu boði. „Ég hefði átt að vita betur,“ sagði Solberg í samtali við NRK í gær.

Forsætisráðherrann á á hættu að fá sekt vegna brotanna.

Kvöldverðurinn átti sér stað í skíðabænum Geilo þar sem Solberg var stödd ásamt fjölskyldu, tveimur systrum sínum og fjölskyldum þeirra.


Tengdar fréttir

Erna Sol­berg braut sótt­varna­reglur í ferð með fjölskyldunni

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, braut sóttvarnareglur í febrúar þegar hún borðaði kvöldverð með þrettán öðrum. Þetta kemur fram í frétt norska ríkisútvarpsins NRK en brotið átti sér stað á meðan Solberg var í fríi í skíðabænum Geilo þar sem hún hélt upp á sextugsafmæli sitt. Þar var hún stödd ásamt fjölskyldu, tveimur systrum sínum og fjölskyldum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×