Fótbolti

Barcelona í úr­slit spænska konungs­bikarsins eftir dramatík

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sá danski skaut Barcelona í úrslitaleik spænska konungsbikarsins í kvöld.
Sá danski skaut Barcelona í úrslitaleik spænska konungsbikarsins í kvöld. Pedro Salado/Getty

Barcelona er komið í úrslitaleik spænska konungsbikarsins eftir 3-0 sigur á Sevilla í síðari leik liðanna í undanúrslitunum. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 2-0 og því þurfti að framlengja.

Sevilla vann fyrri leikinn 2-0 en fyrsta mark kvöldsins skoraði Ousmane Dembele á tólftu mínútu með þrumufleyg með hægri fæti.

Sevilla fékk gullið tækifæri til að jafna á 73. mínútu en Marc Ter Stegen varði vítaspyrnu Lucas Ocampos. Það átti eftir að koma í bakið á þeim.

Þeir misstu menn af velli á 92. mínútu er Fernando fékk sitt annað gula spjald fyrir brot rétt fyrir utan vítateigs og fjörinu var ekki lokið.

Það var á fjórðu mínútu uppbótartíma sem Gerard Pique skallaði fyrirgjöf Antoine Griezmann í netið og tryggði Börsungum framlengingu.

Það voru liðnar fimm mínútur af framlengingunni er Martin Braithwaite, sem kom inn á sem varamaður undir lok venjulegs leiktíma, skoraði þriðja mark Börsunga.

Eftir fyrirgjöf Jordi Alba skallaði sá danski boltann í markið og skaut Barcelona áfram. Lokatölur 3-0 og samanlagt 3-2.

Barcelona mætir annað hvort Athletic Bilbao eða Levante í úrslitaleiknum. Þau mætast annað kvöld en staðan eftir fyrri leik liðanna er 1-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×