Fótbolti

Enginn tekur slaginn við Guðna

Sindri Sverrisson skrifar
Guðni Bergsson vann öruggan sigur í síðasta formannsslag, árið 2019.
Guðni Bergsson vann öruggan sigur í síðasta formannsslag, árið 2019. vísir/vilhelm

Frestur til þess að bjóða sig fram til stjórnar Knattspyrnusambands Íslands rann út um helgina. Útlit er fyrir að Guðni Bergsson verði sjálfkjörinn formaður til næstu tveggja ára.

Kjörnefnd KSÍ kemur saman í hádeginu í dag til að yfirfara þau framboð sem hafa borist og staðfesta þau, fyrir ársþingið sem fram fer rafrænt 27. febrúar. 

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði í samtali við Vísi nú í morgun að ekki væri vitað til þess að mótframboð hefði borist gegn Guðna sem er sitjandi formaður.

„Við höfum ekki séð slíkt ennþá, en við erum að fara yfir alla okkar samskiptamiðla til að ganga úr skugga um að það leynist ekki eitthvað þar,“ sagði Klara. Tilkynning yrði send út eftir hádegi með upplýsingum um frambjóðendur til stjórnar.

Guðni tók við sem formaður KSÍ árið 2017 eftir að hafa haft betur gegn Birni Einarssyni með 83 atkvæðum gegn 66. Formaður er kjörinn til tveggja ára. Árið 2019 fékk Guðni mótframboð frá forvera sínum í starfi, Geir Þorsteinssyni, en var endurkjörinn með 119 atkvæðum gegn 26 atkvæðum Geirs.

Þeir fjórir stjórnarmenn sem kosnir voru til tveggja ára á ársþingi 2019, þau Ásgeir Ásgeirsson, Borghildur Sigurðardóttir, Magnús Gylfason og Þorsteinn Gunnarsson, gefa kost á sér til áframhaldandi setu.

Í fyrra voru Gísli Gíslason, Ingi Sigurðsson, Ragnhildur Skúladóttir og Valgeir Sigurðsson sjálfkjörin í stjórn til tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×