Hinn 73 ára Draghi, sem gegndi embætti seðlabankastjóra Evrópu á árunum 2011 til 2019, hefur þegar tilkynnt um ráðherra í ríkisstjórn sinni eftir að hafa átt fund með forseta landsins. Draghi hlaut í seðlabankastjóratíð sinni viðurnefnið „Super Mario“ vegna aðgerða sinna á tímum fjármálakreppunnar í álfunni.
Draghi tókst að tryggja sér stuðning nærri allra stærstu flokkanna á þinginu í kjölfar þess að stjórn Guiseppe Conte forsætisráðherra riðaði til falls í síðasta mánuði vegna deilna um hvernig skyldi verja fé úr neyðarsjóði Evrópusambandsins vegna kórónuveirunnar.
Ítalía glímir nú við miklar efnahagsþrengingar vegna heimsfaraldursins, en alls hafa um 93 þúsund dauðsföll í landinu verið rakin til Covid-19. Er landið á sjötta sæti á lista yfir fjölda dauðsfalla af völdum veirunnar.
Di Maio áfram utanríkisráðherra
Eftir langar viðræður tókst Draghi að tryggja sér stuðning Fimm stjörnu hreyfingarinnar, en Luigi Di Maio úr þeim flokki mun áfram gegna embætti utanríkisráðherra landsins. Þá verður Giancarlo Giorgetti úr Bandalaginu, hægriöfgaflokki á þingi, nýr iðnaðarráðherra og Andrea Orlando úr Lýðræðisflokknum verður atvinnuvegaráðherra.
Forsætisráðherrann Conte sagði af sér eftir að Matteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, dró flokk sinn, Italia Viva, úr samsteypustjórn Contes.
Áður hafði Conte í fimmtán mánuði leitt samsteypustjórn Fimm stjörnu hreyfingarinnar og hægriöfgaflokksins Bandalagsins. Sú stjórn sprakk þegar Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins, dró flokkinn út úr stjórninni í tilraun til að ná fram nýjum kosningum.
Það tókst hins vegar ekki eftir að Fimm stjörnu hreyfingin, Lýðræðisflokkurinn og fleiri flokkar ákváðu að snúa bökum saman og mynda nýja stjórn – aftur undir stjórn Contes.
Ríkisstjórn Draghi verður sú 67. í röðinni á Ítalíu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.