Tillögurnar ganga í meginatriðum út á blandaða byggð með íbúðum af mismunandi stærðum og gerðum og verslunar- eða veitingastarfsemi. Gert er ráð fyrir að nýbyggingar myndi tvo kjarna í kringum opin sameiginleg garðsvæði með gönguleiðum, torgum og leiksvæðum, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.
Tillagan gerir ráð fyrir að núverandi byggingarréttur norðan við Hafnarstræti 82 verði færður á suðurhlið sama húss, en með því móti myndast torg sem tengir Hafnarstræti inn í nýju byggðina. Lagt er upp með að gegnumakstur milli nýbygginga að Hafnarstræti og Austurbrú verði aflagður en í stað þess verði hugsanlega kvöð um gönguleið í gegnum hverfið ásamt niðurkeyrslu í bílageymslur.
„Markmið þróunaraðila er að reiturinn verði til þess að styrkja stöðu miðbæjarins sem þungamiðju menningar, verslunar og þjónustu. Lögð er áhersla á að yfirbragð nýbygginga falli vel að núverandi byggð og bæjarmynd,“ segir í tilkynningu.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af tillögu Luxor, sem teiknuð er af THG arkitektum, um uppbyggingu á lóðunum, sem kallaðar hafa verið Drottningarreitur.
Myndbandið er birt á YouTube-síðu Skapta Hallgrímssonar, ritstjóra Akureyri.net.