Skoðun

Sálfræðingar á stofu

Marteinn Steinar Jónsson skrifar

Sálfræðingar sinna greiningu og meðferð sálarmeina af margvíslegum toga. Hér er gerð grein fyrir tólf algengum ástæðum þess að fólk leitar aðstoðar sálfræðinga á stofu.

1. Kvíði og streita

Kvíði og streita stuðlar að þrálátum og íþyngjandi tilfinningum sem eru fylgifiskar þess hversu erfitt getur verið að sjá fyrir um hvernig málin komi til með að þróast. Margir grufla án afláts í kvíðahugsunum og verður afrakstur þess aðeins til að magna upp enn meiri vanlíðan. Þegar áhyggjurnar verða yfirdrifnar nær kvíðinn og streitan yfirhöndinni.

Pirringur, skapstyggð, viðkvæmni, höfuðverkur, depurð, svefnvandi, kökkur í hálsi, oföndun, neikvæðni og vanmáttarkennd er meðal þess sem af þessu hlýst. Kvíðavandinn er þá farinn að hafa alvarlegar afleiðingar á daglegt líf okkar.

Ef ekkert er að gert getur vandinn leitt til annars geðræns vanda, svo sem þunglyndis auk áfengis- og lyfjamisnotkunar. Sálfræðingur á stofu sér mikið af slíkum heilbrigðisvanda. Fullyrða má að kvíða- og streituvandi séu algengustu sálarmein sem sálfræðingar meðhöndla.

2. Depurð og þunglyndi

Það hendir alla að finna einstaka sinnum til depurðar og leiða. En þegar um þunglyndi er að ræða hefur depurð og vonleysi náð undirtökunum. Vandinn getur haldist við vikum og mánuðum saman og tekið sig upp reglulega. Þunglyndi á sannarlega ekki rætur að rekja til sjálfsvorkunnar, leti eða viljaleysis. Vandinn verður auk þess ekki yfirunninn í krafti viljastyrks.

Birtingarmyndir þunglyndis eru breytilegar eftir einstaklingum: Meðal annars viðvarandi óyndi, depurð, vonleysi, vanmáttarkennd, sektarkennd og kvíði. Sem pirringur, áhugaleysi, framtaksleysi, sjálfsásakanir, neikvæðni, sjálfsvígshugsanir, svefntruflanir, kyndeyfð, lystarleysi og einbeitingarskortur.

3. Sorgarvandi

Áföll og missir, til dæmis vegna fráfalls ástvinar, sambúðarslita, atvinnumissis, sjúkdóma eða slysa, geta leitt til sorgarvanda. Sorgarviðbrögðin eru breytileg eftir einstaklingum. Meðal birtingarmynda eru viðkvæmni, eirðarleysi, sjálfsásökun, eftirsjá, sektarkennd, ótti, reiði og pirringur. Þrá eftir því sem áður var, doði, depurð, tómleiki og tilgangsleysi.

Sorgarvandinn hefur oftar en ekki áhrif á alla fjölskylduna. Töluvert er um að sálfræðingar veiti sálfræðimeðferð fyrir einstaklinga og fjölskyldur þegar um sorgarvanda er að ræða. Aðstoð við fleiri en þann einstakling sem hafði frumkvæði af því að leita sér aðstoðar, getur skipt verulegu máli fyrir bataferlið.

4. Frestunarárátta

Frestunarárátta einkennist einkum af tvennu. Annars vegar sterkri tilhneigingu til að skjóta sér undan því að framkvæma. Lamandi tilfinningar kvíða, ótta og neikvæðni standa í vegi nægjanlegs sjálfstrausts til framkvæmda. Annað einkenni, samofið því fyrra, felst í sjálfsblekkingu. Viðkomandi

telur sér trú um að best sé fresta framkvæmdum til morguns, til næstu daga eða jafnvel til lengri tíma. Um vítahring verður að ræða.

Talið er að frestunarárátta sé lærð hegðun. Oftar en ekki mótast hún snemma á lífsleiðinni og verður að vana. Það sem við höfum vanið okkur á getum við einnig vanið okkur af. Við þurfum því ekki að örvænta, við getum sigrast á vandanum. Sálfræðingar á stofu fá mjög oft til sín einstaklinga sem vilja sigrast á frestunaráráttu.

5. Samskiptavandi

Góð samskipti og félagsleg tengsl eru meðal brýnustu forsendna lífsgæða og vellíðunar. Góð samskipti má einkum rekja til þriggja áhrifaþátta (1) samkenndar og skilnings á forsendum annarra; það er hæfileikans til að setja sig í spor annarra. (2) góðs samskiptaþroska og hæfni á sviði hlustunar og tjáningar auk (3) ábyrgðarkenndar og sjálfsaga.

Góð samskipti byggjast ekki á „fullkomnu“ sambandi þar sem engum verður á mistök. Heldur hvernig unnið er uppbyggilega með málefnin.

Stundum er brýnt að tekist sé á við óleystan tilfinningavanda sem hamlar góðum samskiptum. Dæmi um slíkt er vangeta til að taka réttmætri gagnrýni, að horfa í eigin barm. Orsakir slíks geta verið fremur ómeðvitaðar. Verður því erfitt fyrir viðkomandi að yfirvinna vandann. Sálfræðingar aðstoða við að fletta ofan því sem um ræðir, gera hið ómeðvitaða meðvitað svo hægt sé að vinna að úrlausn vandans.

6. Sambúðar- og fjölskylduerfiðleikar, sambúðarslit

Meginþorri fólks býr að góðri samskiptagetu. En stundum verða kringumstæðurnar of krefjandi. Særindi og sundurlyndi knýja dyra í kjölfar áfalla, trúnaðarbrests, framhjáhalds, samskiptaleysis. Fólk gengur í gegnum erfið tímabil og ekki er sjálfgefið að takist að vinna rétt úr málum. Að þær „lausnir“ sem við fyrstu sýn blasa við séu í raun til bóta.

Erfiðleikar og vanlíðan í sambúð og hjónabandi smita út frá sér, hafa víðtæk áhrif, djúpt inn í fjölskyldukerfið. Vandinn bitnar á þeim sem standa okkur næst, börnum, foreldrum, tengdaforeldrum, systkinum, vinum og vandamönnum. Öðru fremur þarf að vinna með dýpri ástæður vandans fremur en að einblína um of á yfirborðsþættina.

Rannsóknir hafa gefið til kynna að meira en helmingur ágreiningsefna verði ekki leyst með viðhlítandi hætti. Sálfræðingar geta oftar en ekki veitt þann stuðning og aðstoð sem þörf er á.

Margir telja að ekki sé ástæða að leita til fagaðila nema vandinn sé kominn á alvarlegt stig, til dæmis þegar skilnaður vofir yfir. En þá getur það stundum verið um seinan. Leita ætti til fagaðila um leið og í ljós kemur að ekki er lengur auðvelt að tala saman. Sálfræðingur greiðir fyrir úrvinnslu ágreiningsins. Sú vinna getur komið í veg fyrir að vandamál nái að þróast síðar meir og fari jafnvel í óleysanlegan hnút.

7. Áfallavandi af ýmsum toga

Áföll eru af svo margvíslegum toga. Áfallastreita, öðru nafni eftiráfalls- og álagsröskun, er tilkomin af ýmsum ástæðum. Sökum tilfinningalegs og líkamlegs ofbeldis, kynferðislegrar misnotkunar, heimilisofbeldis, slysa, náttúruhamfara; snjóflóða, jarðskjálfta, o.s.frv.

Tafarlaus eftirköst áfalls vegna kynferðislegs ofbeldis eru lamandi vanmáttarkennd, skömm, ótti og vangeta til að treysta öðrum. Einkenni til lengri tíma koma fram í óstyrkri sjálfsmynd, kvíða, ótta, sektarkennd eða áfallastreituröskun.

Viðbrögð þess sem upplifað hefur alvarlegan áfallavanda einkennast oft af skelfingu, hjálparleysi og hryllingi sem helst við í langan tíma, jafnvel árum saman.

Við meðferð áfallavanda af margvíslegu tagi nýta sálfræðingar gagnreyndar aðferðir sem sannað hafa meðferðargildi sitt í vönduðum rannsóknum.

8. Meðvirkni

Einkennin eru meðal annars:

  • Knýjandi þörf fyrir að geðjast öðrum, að vinna sér inn athygli, viðurkenningu og hlýju.
  • Lamandi ótti við vanþóknun, gagnrýni og höfnun og knýjandi þörf að fyrirbyggja slíkt.
  • Sjálfsmyndin stendur og fellur með viðurkenningu annarra.
  • Sveiflast á milli vanlíðan og vellíðan eftir hvernig tekst til hverju sinni.
  • Fullkomnunarárátta og ótti við höfnun.
  • Erfitt með að setja öðrum mörk.
  • Stendur ekki með sjálfri /sjálfum sér. Eigin hagsmunir víkja fyrir hagsmunum annarra.
  • Leyfir öðrum að ráðskast með sig.
  • Sjálfsásakanir þegar illa fer, fremur en að sjá hlutina í eðlilegu samhengi.

Sálfræðingur metur allt það sem vinna þarf með og styður skjólstæðinginn skref fyrir skref við úrlausn á meðvirknivanda.

9. Lítið sjálfstraust

Sjálfstraustið er stundum of lítið. Hugmyndir um eigin getu og verðleika einkennast þá af lamandi efasemdum, kvíða og óöryggi.

Viðkomandi ofmetur líkur á að illa fari um leið og hann vanmetur eigin getu til að sigrast á kringumstæðunum.

Vanmáttarkennd og hrakfarir verða olía á eld viðvarandi kvíða og vanmáttarkenndar. Kvíðahugsanir verða allsráðandi. Einblínt er á fyrri mistök og möguleg mistök. Hugsað um hvað öðrum kunni ef til vill að finnast um viðkomandi og hversu ómöguleg hún eða hann hljóti að vera.

Skert sjálfstraust verður til þess að viðkomandi hliðrar sér hjá athygli, af ótta við vanþóknun og höfnun. Hann áræðir því ekki að framkvæma það sem vilji og löngun hans stendur til. Sálfræðingur veit að með því að fara hægt í ferlið, er unnið hratt og á hraða skjólstæðingsins (Slow is fast). Annars er hætta á að meðferðarferlið verði of ógnandi fyrir skjólstæðinginn.

10. Kulnun og örmögnun í starfi

Hraði og álag í vinnu og einkalífi getur farið úr hófi fram. Auknar kröfur eru um hámarksframmistöðu. Samtímis verða viðfangsefnin flóknari og samkeppnin meira krefjandi. Of mikið vinnuálag á vinnustað og á vettvangi daglegs lífs fer að lokum að hafa niðurbrjótandi áhrif á heilsu okkar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint andlega og líkamlega örmögnun sem alvarlegan heilsufarsvanda, sem rekja má til of mikils vinnuálags. Vandinn tekur tíma að þróast og getur, sé ekkert að gert, leitt til tilfinningalegrar og líkamlegrar uppgjafar; til kulnunar og örmögnunar. Viðkomandi fer að þjást af svefntruflunum, kvíða, pirringi, depurð, sjálfsefasemdum um eigin getu, vonleysi, ofurviðkvæmni, stoðkerfisverkjum, spennuhöfuðverk. Þegar svo er komið verða margir óvinnufærir um skemmri eða lengri tíma.

Af ofansögðu er ljóst að mikið og viðvarandi álag hefur mjög skaðleg áhrif á andlega og líkamlega líðan. Sálfræðingar og aðrar heilbrigðisstéttir bjóða upp á meðferð og hagnýt úrræði til að snúa þessari óheillaþróun við. Mikilvægt er að snemma sé gripið inn í ferli svo hægt sé að fyrirbyggja vandann áður en það verður um seinan.

11. Samskipti og uppeldi barna

Börn hafa sterka þörf fyrir öryggi, stöðugleika, athygli, hlýju og virðingu. Foreldrar sem koma til móts við börn sín með þessum hætti stuðla að því að barnið efli með sér góða sjálfsmynd. Margir samverkandi þættir stuðla að velheppnaðri uppeldismótun, þroska og vexti.

Sálfræðingur veitir handleiðslu og stuðning í tengslum við málefni barna og unglinga á sviði uppeldismála, ráðgjafar varðandi hegðunar- og tilfinningavanda. Stundum er þörf á meðferð við tilteknum vanda.

12. Aðlögunarvandi

Mjög margt getur sett okkur tilfinningalega úr jafnvægi. Krefjandi áskoranir og mótlæti geta vakið og viðhaldi kvíða og ótta. Til dæmis starfsmissir, yfirvofandi skilnaður, erfiðleikar í fjölskyldunni eða alvarleg veikindi. Annað þessu líkt er fjárhagsvandi, væntingar um betri starfsárangur eða jafnvel væntanleg starfslok. Oft er óljóst hvernig bregðast skal við kringumstæðum sem vinna gegn sjálfstrausti og öryggiskennd.

Sálfræðingar bjóða upp á margvísleg úrræði. Sálfræðileg aðstoð getur oft verið ein af lykilforsendum þess að takist að yfirvinna vandann.

Höfundur er sálfræðingur hjá Úrlausn sálfræðiþjónustu (www.urlausn.is)




Skoðun

Sjá meira


×