Það voru þýsku fjölmiðlarnir Handelsblatt og Bild sem höfðu eftir heimildarmönnum innan úr stjórnkerfinu að áætlanir þýskra stjórnvalda gerðu ráð fyrir að virkni bóluefninsins frá AstraZeneca væri aðeins átta prósent meðal einstaklinga eldri en 65 ára, samanborið við 90 prósent virkni annarra bóluefna hjá sama hóp.
Heilbrigðisráðuneytið þýska sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu í dag þar sem sagði að svo virtist sem gögn hefðu misskilist; hlutfallið átta prósent væri í raun og veru hlutfall þátttakenda á umræddum aldri.
Um átta prósent sjálfboðaliða í rannsóknum AstraZeneca hefðu verið á bilinu 56 til 69 ára og þrjú til fjögur prósent 70 ára og eldri. „Þetta þýðir ekki að [bóluefnið] virki aðeins hjá átta prósentum eldra fólks,“ sagði í yfirlýsingunni.
Samkvæmt rannsóknargögnum sem lyfjafyrirtækið birti í desember er virkni bóluefnisins 70 prósent meðal fullorðinna. Um er að ræða afrakstur samstarfs AstraZeneca og Oxford-háskóla en talsmaður Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag að samkvæmt ráðgjöfum stjórnvalda væri bóluefnið bæði „öruggt“ og „áhrifaríkt“.
Samkvæmt erlendum miðlum hefur kastast í kekki milli Evrópusambandsins og AstraZeneca eftir að lyfjafyrirtækið greindi frá því að það myndi ekki geta afhent umsaminn fjölda skammta vegna framleiðsluvandamála. Evrópusambandið brást við með því að tilkynna að það kynni að hamla dreifingu bóluefnisins utan sambandsins.